Endurreisn MG-Rover ekki í sjónmáli

The image “http://www.fib.is/myndir/Rover75.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Rover 75 - kemst hann nokkurntíman á flug?
Það vakti mikla athygli innan hinnar alþjóðlegu bílgreinar þegar hið lítt þekkta kínverska Nanjing Automobile átti hæsta boð í þrotabú MG-Rover og gleypti þar með verksmiðju og framleiðslurétt á Rover-bílum fyrir framan nefið á öðru kínversku bílaframleiðslufyrirtæki og miklu þekktara; SAIC.
Þess blóðugra var þetta fyrir SAIC, stærsta bílaframleiðslufyrirtæki Kínaveldis, vegna þess að SAIC hafði um árabil verið í samstarfi við MG-Rover og hafði örlög þess í hendi sér um tíma en sleppti tækifærinu til að setja fé í MG-Rover og bjarga því frá gjaldþroti en eignast í staðinn sterkan, jafnvel ráðandi hlut.
Eftir að bústjóri þrotabús MG-Rover, PricewaterhouseCoopers hafði metið tilboð í búið var gengið að tilboði Nanjing Automobile upp á 50 milljónir punda. Við kaupin hét Nanjing því að endurreisa bílaframleiðslu Rovers í síðasta lagi í árslok og leggja aukna áherslu á rannsóknir og vöruþróun.
Í fréttaskýringu fréttastofu Reuters segir að nú sé nokkurnveginn orðið ljóst að Nanjing muni ekki geta efnt loforðið sem Wang Qiujing forstjóri Nanjing gaf í septembermánuði sl. um að stofna 1.200 ný störf fyrir árslok 2006 og koma bílaframleiðslunni upp í 100 þúsund bíla á ári  á næstu fimm árum.
„Þetta er allt eitt stórt spurningamerki,“ segir Dominik Declercq hjá samtökum evrópskra bílaframleiðenda. Hann segir að það muni kosta tugi milljóna punda að stofna ný störf og koma MG-Rover af stað á ný í Bretlandi og..., „við vitum að þeir eru ekki sterkir peningalega,“ sagði Declercq ennfremur við Reuters.
Nanjing Auto er eitt elsta bílaframleiðslufyrirtæki Kína. Það byrjaði sem herbílaframleiðslufyrirtæki árið 1947. Fyrsti bíllinn var léttur vörubíll sem hét Yuelin sem ennþá er talsvert algengur í Kína.  
Nanjing er nú eitt af minni bílafyrirtækjunum í Kína og hefur verið að dragast aftur úr allt frá árinu 1990 þegar helstu keppinautarnir gerðu framleiðslusamninga við erlenda bílaframleiðendur eins og Ford, GM, Honda og BMW. Nanjing átti hins vegar í samstarfi við Fiat sem hefur verið í miklum erfiðleikum undanfarin ár. Fréttaskýrendur skilja því ekki almennilega hvernig á því stóð að PricewaterhouseCoopers skyldi taka fremur tilboði þessa fyrirtækis í Rover en tilboði SAIC, sem átt hefur áralangt farsælt samstarf við erlenda risa eins og GM og Volkswagen í Kína.