Engin efni til að tortryggja hraðamyndavélarnar

Sænska vegagerðin hefur mótmælt fullyrðingum sem fram komu í sænskum fjölmiðlum um að hraðamyndavélar við sænska vegi mældu rangt af ýmsum ástæðum og að þúsundir Svía hefðu þannig ranglega fengið hraðasektir þegar þeir í raun óku innan hámarkshraðamarka. Vegagerðin segir að þær ástæður sem tilgreindar hafa verið sem möguleg orsök mælingarskekkju hafi allar verið leiðréttar í myndavélakerfunum áður en þau voru tekin í notkun. Frá þessu máli var fyrst greint á fréttavef FÍB í þessari frétt.

Í svari sænsku vegagerðarinnar er því lýst hvernig myndavélakerfin virka og ef t.d. veður eða aðrar ytri aðstæður verða óvenjulegar á einhvern hátt, þannig að radarmæling kerfanna gæti truflast af þeim sökum og hætta eykst á rangri mælingu, þá slökkvi kerfið sjálfvirkt á sér.

Þá hafi hvert og eitt radarmyndavélakerfi verið þaulprófað og stillt af viðurkenndri rannsókna- og prófunarstofnun. Í prófuninni hafi verið tekið tillit til allra hugsanlegra þátta sem truflað gætu radarinn og kerfin í heild. Það hafi verið gert með því að aka bæði stórum og smáum bílum, með og án aftanívagna inn í radargeislann. Sömuleiðis hafi menn látið framúrakstur eiga sér stað inni í geislanum, hverskonar speglun og fleira. Endurteknar prófanir af slíku tagi hefðu engum frávikum valdið í mælingum.  Þá væri alltaf reiknað með eins km frádrætti frá mældum hraða til öryggis. Og þess utan reiknaði réttarkerfið alltaf með öryggisfrádrætti frá mældum hraða upp á +6 km á klst. Því væri það einfaldlega nánast útilokað að nokkur maður hefði nokkru sinni verið dæmdur til að greiða hraðasekt í Svíaríki út frá vafasamri hraðamyndavélarmælingu.

Hér má lesa svar sænsku vegagerðarinnar í heild.