Engin einbreið brú lengur austur fyrir Kirkjubæjarklaustur

Vígsla nýrrar brúar yfiryfir Jökulsá á Sólheimasandi fór fram fyrir helgina. Með tilkomu brúarinnar fækkar einbreiðum brúm enn frekar og hér eftir verður engin einbreið brú á Hringveginum frá Reykjavík og austur fyrir Kirkjubæjarklaustur.

Sigurðir Ingi Jóhannsson, innviðarráðherra, Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra, og Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, og Bregþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegarðarinnar klipptu á borða af þessu tilefni.

Að lokinni opnunarathöfninni ók ráðherra fyrstur yfir brúna og á eftir honum fór Hörður Brandsson, sem fyrstur ók yfir gömlu brúna árið 1967. Bíll hans er enn á sama númeri, Z 25.

Forgangsmál að útrýma einbreiðum brúm

Í ávarpi sínu sagði Sigurður Ingi að eitt af forgangsmarkmiðum samgönguáætlunar væri að útrýma einbreiðum brúm á Hringveginum.

„Í dag færumst við einu skrefi nær því markmiði. Fyrir fjórum árum voru 37 brýr á Hringveginum einbreiðar, nú eru þær 32 og verða 31 við opnun nýrrar brúar í dag. Og það er ekkert lát á framkvæmdum. Ég er vongóður um að okkur takist að fækka þeim niður í 29 strax fyrir árslok því það stendur til að opna nýjar brýr á Hverfisfljóti og Núpsvötnum síðar á árinu. Þá eru ótaldar þrjár einbreiðar brýr sem munu færast utan Hringvegarins þegar umferð yfir nýja brú um Hornafjarðarfljót verður hleypt yfir,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra í ávarpi sínu.

163 metra löng brú

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar er nýja brúin er 163 m löng og tvíbreið. Heildarbreidd er 10 metrar. Hún er steinsteypt bitabrú í fimm höfum. Brúin liggur rúmum metra hærra en eldri brú en vegurinn vestan brúarinnar hefur verið lækkaður til að beina flóðvatni frá brúarmannvirkinu. 

Verkfræðistofan Verkís sá um hönnunina en Mannvit um framkvæmdaeftirlit. Brúavinnuflokkur Vegagerðarinnar byggði bráðabirgðabrú norðan við gömlu brúna sem var notuð meðan á framkvæmdum stóð. 

Brúin er sú þriðja sem byggð er yfir vatnsfallið. Sú fyrsta var byggð 1921 og sú næsta 1967.