Engin lausn í pústmálinu

Matthias Müller forstjóri Volkswagen.
Matthias Müller forstjóri Volkswagen.

Ekkert samkomulag náðist á fundi Matthias Müller forstjóra Volkswagen og Ginu McCarthy framkvæmdastjóra bandarísku umhverfisstofnunarinnar EPA og fulltrúa bandarískra stjórnvalda í gær. Matthias Müller var bjartsýnn fyrir fundinn og kvaðst ætla að leggja fram tillögu að pakkalausn í pústsvindlmálinu. Automotive News greinir frá þessu.

Í pakka Matthíasar var nýr hvarfakútur sem setja átti í hluta VW dísilbílanna sem höfðu verið útbúnir með hugbúnaði sem slökkti á pústhreinsibúnaði þeirra en kveikti á honum aftur þegar bíllinn var „keyrður“ á keflum og mengunarmældur. Forrita átti síðan tölvur bílanna upp á nýtt. En auk framannefnds ætlaði VW að taka til baka hluta bílanna og endurgreiða kaupendum andvirði þeirra.

Alls nær þetta pústsvindlmál til nærri 600 þúsund VW dísilbíla í Bandaríkjunum og á 12. milljón bíla í heiminum öllum. Þeir af þessum bílum sem hafa verið mengunarmældir síðan án þess að hugbúnaðurinn gripi inn í mælingarnar hafa reynst fara allt að 40-falt fram úr leyfðum hámarksmengunarmörkum.

Fundur þeirra Matthiasar Muller og Ginu McCarthy stóð í aðeins um klukkustund. Eftir hann gaf Gina McCarthy þá yfirlýsingu að ekki hefði náðst samkomulag en fundurinn hefði verið gagnlegur og viðræðum yrði haldið áfram í leit að lausn. Fyrir hátíðarnar hétu stjórnendur VW því að hefja strax upp úr áramótum að færa umrædda bíla til betri vegar. VW lagði þá fyrir Kaliforníuríki vinnuáætlun sem var hafnað vegna þess að hún væri bæði ófullnægjandi og of tímafrek og hið sama gerði svo EPA.