Engin umferð þegar Ísland spilar á HM

Reikna má með að auðvelt verði að komast leiðar sinnar á vegunum á föstudaginn kemur milli klukkan 15 og 17 þegar Íslendingar og Nígeríumen etja kappi á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Við þessu má búast ef marka má umferðartölur frá síðasta laugardegi milli kl. 13 og 15 þegar leikur Íslands og Argentínu stóð yfir.

Umferðin á meðan á leik stóð datt niður og reyndist víða minni en einn þriðji af venjubundinni umferð. Jafnvel má leiða líkum að því að stór hluti umferðarinnar sem þó var hafi verið borin uppi af ferðamönnum. 

Vegagerðin hefur bent á þá fylgni sem er á milli umferðarinnar á þjóðvegum og hagvaxtarins. Umferðin segir ýmislegt annað um það sem er að gerast í þjóðfélaginu. Þegar Ísland leikur á HM í Rússlandi lýsir umferðin því sem fólk er að gera. Þjóðin er að horfa á leikina og ekki úti að aka.