Faraday - spilablekking í Las Vegas?

Frumgerð rafbíls sem Faraday sýndi á CES-sýningunni í Las Vegas nýlega
Frumgerð rafbíls sem Faraday sýndi á CES-sýningunni í Las Vegas nýlega

Á raftæknisýningunni CES in Las Vegas nýlega fór fram blaðamannafundur á vegum nýs fyrirtækis¸ Faraday Future, sem kveðst ætla að framleiða háþróaða rafbíla. Talsverðum sögum hefur farið af þessu fyrirtæki í fjölmiðlum undanfarið - fjölmiðlum sem fjalla um alþjóðlegar fjárfestingar, tækni og bíla. Þýska fréttaveitan Der Spiegel var viðstödd fundinn í Las Vegas og er lítt hrifin, talar um blekkinguna miklu; Der große Bluff von Las Vegas.

Komið hefur fram í fréttum undanfarið að Faraday Future sé tryggilega fjármagnað og að meðal fjárfestanna sé kínverskur Internetmilljarðamæringur, Jia Yueting að nafni og Nevadaríki þar sem bílaverksmiðja Faraday á að rísa. 750 manna hópur tækni- og markaðsfólks er þegar starfandi. Talsmenn Faraday Future á fundinum í Las Vegas voru m.a. fyrrverandi forstjóri General Motors í Kína og Bandaríkjamaðurinn Nick Sampson sem áður hefur komið að þróunarmálum hjá Tesla, Lotus, Jaguar o.fl. Talsmennirnir lýstu framtíðarsýn Faraday og sinni og varð tíðrætt um mengunarlausa framtíð samgangna. Hreyfanleiki fólks í nánustu framtíð fælist í endurskilgreiningu á hlutverki og eignarhaldi einkabílsins. Bílar yrðu senn einvörðungu rafknúnir, í fullu netsambandi bæði innbyrðis og við samfélagið og sjálfstýrðir að meira og minna leyti. Spiegel segir ræður Sampsons og annarra talsmanna Faraday hafa verið innantómar og svör við spurningum einkennst af haldlitlu blaðri.

Á fundinum var sýnd óljós frumgerð bíls og var talsvert gert úr því að bílar Faraday yrðu hannaðir og hugsaðir á allt annan og frjórri hátt en áður hafi verið gert. Meðal nýjunga sem Faraday menn boðuðu var gerbreytt mynstur í notkun bílanna og eignarhaldi á þeim og samnýtingu, sem ekki hefði þekkst áður.  Sjálfir bílarnir og undirvagnar þeirra yrðu byggðir úr einingum sem gæfi áður óþekkta möguleika til að framleiða bíla til að uppfylla margskonar þarfir og kröfur. Allt væru þetta nýjungar sem bílaiðnaðinum hefði hingað til ekki hugkvæmst. Fréttamenn á fundinum minntu talsmennina þá á þá staðreynd að fjöldamargir bílaframleiðendur hefðu þegar framleitt bíla úr forframleiddum einingum um árabil og bæði  BMW og Daimler, svo einungis tveir væru nefndir, hefðu um talsvert skeið rekið fjöldamörg dótturfélög sem gerðu út flota samnýtingarbíla.

Spiegel dregur þá ályktun eftir fundinn í Vegas að hann hafi kveikt fleiri spurningar og að þau fáu svör sem fengust hafi vart geta talist trúverðug. Engin svör hafi fengist við því hvenær bílaframleiðsla Faraday hæfist, hvernig bílarnir yrðu, hve margir yrðu framleiddir og hvað þeir munu kosta. „En má búast við svörum á kynningarfundi sem haldinn er í spilavítisborginni Las Vegas?“ spyr Spiegel. Við spilaborðið sé ekki hægt að sannreyna það hvort sá sem spurður er sé með alla ásana á hendi eða hvort hann sé aðeins að láta sem að svo sé.