Yfir 9 milljón Toyota tvinnbílar

Toyota er sá bílaframleiðandi sem gerði tvinnbílinn eða tvíorkubílinn að veruleika með Prius-bílnum sem bæði nýtti bensín – og raforku til að hreyfast úr stað. Sala á honum hófst fyrst í heimalandinu Japan árið 1997.

Að vísu voru fyrstu Prius tvinnbílarnir þannig að rafmagnið varð til í rafali sem knúinn var af bensínvélinni. Byltingin fólst fyrst og fremst í því að þegar bíllinn hægði á sér eða honum var hemlað, breytti hann hreyfiorkunni eða skriðþunganum aftur í rafstraum sem hlóðst inn á forðageymi. En með þessu náðist að draga úr bensínnotkuninni, sérstaklega í þéttbýlisakstri þar sem ökuhraði er rykkjóttur. Þegar svo fram liðu stundir komu svo Prius-tengiltvinnbílarnir fram, en þeim má stinga í samband og hlaða forðageyma þeirra og draga enn frekar úr bensínbrennslunni. Nú er Prius ekki lengur eini tvinnbíllinn sem Toyota framleiðir eins og fyrstu árin. Tvinnbílagerðirnar eru orðnar 33.

Þetta var í stuttu máli frumkvæði Toyota sem varð forystuafl þessarar þróunar og  þann 30. apríl sl. var það staðfest að selst höfðu ríflega níu milljón Toyota tvinnbílar. Eftirspurnin eftir þeim hefur hraðvaxið síðustu mánuðina sem sést af því að einungis níu mánuðir eru síðan Toyota náði átta milljón bíla markinu. Fyrsta upplag Prius tvinnbílsins árið 1997 var að sönnu ekki stórt – einungis þrjú þúsund seldir bílar. Það var síðan ekki fyrr en tíu árum síðar að kaupandi tók við milljónasta Príus bílnum.

Tvinntæknin er mikilvægur þáttur í þeirri viðleitni Toyota að draga úr CO2 losun bílanna um 90 prósent fram til ársins 2050. Því munu á allra næstu árum koma fram fjöldamargar nýjar gerðir Toyota tvinnbíla. Fyrirtækið áætlar að árssala tvinnbíla þess haldi áfram að vaxa og verði komin í 15 milljón bíla árið 2020. Toyota reiknar með því að þá hefðu tvinnbílar sínir beinlínis sparað andrúmslofti heimsins um 67 milljón tonn miðað við það að engir Toyota tvinnbílar heldur bara sambærilegir bensínbílar að stærð og afli hefðu komist í umferð.