Enn hækkar eldsneyti til neytenda

Esso, Olís og Shell hækkuðu í dag bensínið um 1,40 krónur á lítra og dísilolíu um 2,40 kr.  Eftir þessa breytingu er algengt verð á höfuðborgarsvæðinu á 95 oktana bensíni í sjálfsafgreiðslu á þjónustustöð, 114,40 kr/l. og dísilolíu 113,90 kr/l. Bensínlítri með þjónustu kostar 119,40 kr/l. og dísilolía með þjónustu 118,90 kr/l.

Þrátt fyrir þessa hækkun hér heima voru heimsmarkaðsfréttirnar jákvæðari í dag vegna þess að hráolían lækkaði lítilega eftir að hafa náð methæðum í síðustu viku.

Það eru gömul og ný sannindi að það er auðveldara að hækka neysluvöru og auka álagningu þegar heimsmarkaðurinn er á hraðri uppleið.  Það er að sjálfsögðu mikilvægt að olíufélögin íslensku noti ekki hækkanir á heimsmarkaði til að ,,jafna" betur sín verð.  FÍB mun nú sem áður fylgjast vel með álagningu olíufélaganna.  Þrátt fyrir jákvæða þróun síðustu misseri þá er íslenski olíumarkaðurinn fákeppnismarkaður með öllum þeim hættum sem því fylgja.