Enn stöðvast framleiðsla Saab

Bílaframleiðslan hjá Saab í Trollhättan í Svíþjóð  stöðvaðist enn og aftur í morgun vegna skorts á íhlutum. Vafasamt þykir að færiböndin komist aftur í gang í þessari viku að sögn Auto Motor & Sport í Svíþjóð. Ástæða stöðvunarinnar nú er sú sama og áður: Íhluti vantar í bílana og ástæðan fyrir því að þá vantar, er enn og aftur ógreiddir reikningar framleiðenda íhlutanna.

Vaxandi óróa er tekið að gæta hjá söluumboðum Saab og sú aukna tiltrú sem tekið var að gæta meðal bílakaupenda og bílasöluumboða fer ört minnkandi.

Aldrei áður hefur Saab getað boðið jafn breitt úrval gerða sem nú salan fór hraðvaxandi þar til vandamál vegna lausafjárskorts og greiðsluerfiðleika tóku að hrannast upp í sl. mánuði.

Í síðustu viku komst framleiðslan aftur í gang eftir endutekin stopp og truflanir og allt virtist vera á beinu brautinni á ný eftir að samningar tókust um greiðslur til IAC, sem framleiðir mælaborð og hurðaspjöld fyrir Saab. En nú er allt strand á ný því að aðrir undirframleiðendur vilja líka fá útistandandi kröfur sínar greiddar eins og IAC fékk.