Ennþá er verð á bílum mismunandi eftir Evrópulöndum

The image “http://www.fib.is/myndir/New-Cars.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Nýir bílar hafa lengi verið einna ódýrastir í Danmörku, það er að segja fyrir aðra en Dani. Vegna hinna ofurháu skráningargjalda sem danska ríkið leggur á nýja bíla og gerir Dönum og öðrum sem búa í landinu að greiða, hafa bílaframleiðendur verðlagt nýja bíla lægra inn á danska markaðinn en t.d. inn á þann þýska, sænska eða lúxembúrgíska þar sem einu gjöldin á nýja bíla eru virðisaukaskattur.
Útlendingar, t.d. Svíar og Þjóðverjar og Íslendingar svosem líka, hafa af þessum sökum getað farið til Danmerkur og keypt nýja bíla þar á mun hagstæðara verði en í heimalandinu, flutt þá heim og skráð þá þar og sparað sér þannig umtalsverða peninga. Evrópusambandið hinsvegar skikkaði fyrir fáeinum árum bílaframleiðendur til að verðleggja bíla eins innan Evrópska efnahagssvæðisins. Verðið fyrir utan dönsku skráningargjöldin hefur af þessum ástæðum hækkað í Danmörku en þó minna en vænta mátti. Ennþá eru nýir bílar samt ódýrari þar en víðast hvar annarsstaðar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Dýrastir eru bílarnir í Þýskalandi. Það borgar sig því ennþá ágætlega fyrir Þjóðverja að skreppa norður til Danmerkur til að kaupa sér nýjan bíl.
Nýjasta verðkönnun Evrópusambandsins á nýjum bílum nær til 89 bíltegunda og –gerða. Könnunin sýnir að verðið hefur jafnast nokkuð en talsvert vantar upp á að það sé eins allstaðar á svæðinu. Könnunin sýnir að frá maí 2004 til maí 2005 hefur meðalverð á bílum í Evrópusambandinu hækkað um 0,4 prósent.
En það hafa sannarlega orðið miklar breytingar í einstökum ríkjum. Þannig hefur verð á bílum í Bretlandi lækkað um 1,2 prósent, 7,6 prósent í Póllandi og 6 prósent í Tékklandi. Verð hefur hækkað um um 2,4 prósent í Danmörku, 1,8 prósent í Grikklandi, 0,3 prósent í Þýskalandi, 0,9 prósent í Frakklandi og 2,6 prósent á Ítalíu.