Epli og appelsínur?

Í nýjasta Vefriti fjármálaráðuneytisins er m.a. farið yfir hækkanir á vörugjöldum á eldsneyti 29. maí sl., sem hækkaði bensín um 12,50 krónur og dísilolíu um 6,20 krónur á hvern lítra.  Í sömu frétt er fjallað um eldsneytisverð víða í Evrópu og um þann samanburð stendur eftirfarandi vefritinu:  ,,Viðbrögð við hækkuðum vörugjöldum voru eins og við var að búast en rétt er að halda til haga nokkrum staðreyndum um málið. Þrátt fyrir þessar hækkanir er verð á eldsneyti á Íslandi enn með því ódýrasta í Evrópu...“ Þessi samanburður gengur út frá gengi íslensku krónunnar, sem er sögulega veik um þessar mundir.  Reiknimeistarar fjármálaráðuneytisins reikna með Evru-gengi upp á um 173,50 krónur og út frá þeim forsendum er dýrasta bensínið í Hollandi eða um 250 krónur á hvern lítra en algengasta verð á bensíni hér á landi er 181,30 krónur en þjónustuverðið er 186.30 krónur.  Þessi munur virðist Íslendingum í hag en við nánari samanburð þá kemur annað í ljós.  FÍB hefur fengið ábendingu um það að lágmarkslaun í Hollandi eru 1.264,80 Evrur á mánuði en lágmarkslaun á Íslandi eru 145.000 krónur á mánuði.  Út frá þessum sanaburði fær Hollendingur á lágmarkslaunum 875 lítra bensíni fyrir mánaðarlaunin sín í Hollandi en Íslendingurinn á lágmarkslaunum vinnur sér aðeins inn fyrir um 800 lítrum.  Þarna munar 75 lítrum af bensíni á mánuði eða 13.600 krónur.

Í vefritinu kemur fram að hlutfall skatta í eldsneytisverði hér á landi sé „aðeins“ ríflega 50% af hverjum seldum lítra.  Til samanburðar má þess geta að ef gengi íslenskrar krónu væri núna líkt og það var fyrir um 15 mánuðum þá væri skattahlutfallið tæplega 60%.

Ef fulltrúar stjórnvalda fara út í svona samanburðarfræði þá verður að gera þá kröfu að ekki sé aðeins haldið að almenningi þeim samanburði sem telst jákvæður út frá sjónarhóli pólitískra spunameistara.