Er Cadillac CTS-V hraðskreiðasti fólksbíllinn?

Bob Lutz yfirmaður bílaframleiðslu General Motors er gegnheill bílamaður og alls ófeiminn við að segja kost og löst á bílum og láta síðan athafnir fylgja orðum þegar  um er beðið. Hann hefur fullyrt að Cadillac CTS-V serían sé hraðskreiðasti og einn besti lúxusfólksbíll í veröldinni um þessar mundir og þegar hann var beðinn á sínum tíma að sanna þá fullyrðingu, kvaðst hann tilbúinn til að sýna fram á það sjálfur.

Og í dag er komið að því, því að um þrjúleytið í dag að íslenskum tíma skellir hinn 77 ára gamli Bob Lutz á sig hjálminum, sest undir stýri á Cadillac CTS-V bíl á Monticello kappakstursbrautinni í New York til að sanna orð sín. Hann var reyndar búinn að skora á aðra framleiðendur lúxusfólksbíla að etja kappi við sig í dag. Þeirra á meðal var Jaguar XFR, en af hálfu Jaguars hefur verið tilkynnt að hætt hafi verið við þátttöku í þessu Cadillac V-Series Challenge, eins og viðburðurinn kallast.

http://www.fib.is/myndir/Cadillac-cts-v-.jpg
Cadillac CTS-V. Hraðskreiðastur og bestur, segir Bob Lutz. Kemur í ljós í dag.


Upphafið að viðburðinum í dag er rakið til blaðamannafundar á bílasýningunni í Frankfurt fyrir skemmstu, en þar fullyrti Bob Lutz að meðal GM bíla væru bestu bílar heims sem stæðust samanburð við hið allra besta. Meðal þessara bíla væri einmitt sportlega útgáfan af Cadillac CTS. „Cadillac CTS-V er hraðskreiðasti fjöldaframleiddi fólksbíll í heiminum í dag. Ég skal sanna það sjálfur í keppni við hvaða fjöldaframleidda fólksbíl á kappakstursbraut hvenær sem er,“ sagði Bob Luts við þetta tækifæri.

Nokkrir blaðamenn á bílavefnum Jalopnik.com voru ekki seinir á sér að taka Bob Lutz á orðinu og á skömmum tíma gáfu sig fram yfir 100 manns sem vildu ólmir etja kappi við gamla bílamanninn á kappakstursbraut. Það voru síðan blaðamenn Jalopnik.com sem settu keppnina upp og útveguðu bíla til hennar, þeirra á meðal var Jaguar XFR bíllinn sem nú hefur verið dreginn út úr þessum leik. Sú skýring sem Jaguar hefur gefið á þessu er að þær fimm kröppu beygjur sem eru á Monticello brautinni muni hugsanlega valda því að bremsurnar á Jagúarnum ofhitni.

Bob Lutz sagði þegar Jaguar hætti við að atvikið sýndi að þrátt fyrir að evrópsku kraftafólksbílarnir væru frábærir þá væru þeir ekki þannig úr garði gerðir að þeir dygðu á kappakstursbrautum. Cadillac CTS-V væri ekki bara hraðskreiðari en allir sambærilegir bílar, heldur gæti algerlega upprunalegur og óbreyttur CTS-V keyrt hring eftir hring á kappakstursbraut þar til bensínið kláraðist. „Hvorki gírkassi og drif eru í hættu á að yfirhitna, vélarolían yfirhitnar heldur ekki, fríhlaupið á hemlafetlinum lengist kannski örlítið en bremsurnar ofhitna ekki. Auðvitað er staðalbúnaðurinn ekki jafn þolinn og sérbúnaður til kappaksturs er, en bíllinn mun þola þetta og verða algerlega fyrirsjáanlegur í aksturseiginleikum og akstri. Við skulum bara sjá til og sá besti hefur sigur í dag,“ sagði Bob Lutz við fréttamenn fyrir stundu.

Cadillac V-Series Challenge-keppnin fer þannig fram að hver bílanna verður keyrður fimm hringi á brautinni. Bílarnir verða að vera algerlega óbreyttir. Aðstoðarökumaður hjá Lutz verður John Heinricy. Bob Lutz er greinilega afbragðs ökumaður. Hann sýndi það árið 2008 þegar hann ók Cadillac CTS-V á Nürburgring brautinni í Þýskalandi á brautartímanum 7:59,32. Það var þá besti brautartími fyrir óbreyttan fólksbíl sem nokkru sinni hafði náðst. Það var svo sl. sumar sem ökumaðurinn Walther Röhrl sló þetta brautarmet Bob Luts á Porsche Panamera Turbo á tímanum 7:56.