Er Chrysler loks að seljast?

The image “http://www.fib.is/myndir/Chrysler-logo.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Reuters fréttastofan segir frá því í morgun að loks sé búið að selja meirihluta hlutabréfa í Chrysler. Kaupandinn er fjárfestingafélagið Cerberus Capital Management. Kanadíska varahlutaframleiðslufyrirtækið Magna hefur lengi verið nefnt sem hugsanlegur kaupandi en samkvæmt þessu er það úr sögunni. Auto Motor & Sport segir að staðfestingar á fréttinni sé að vænta síðar í dag en öruggar innanbúðarheimildir séu fyrir fréttinni.

Engar fregnir eru af því hvert kaupverðið er, en í fréttum af kaupunum kemur fram að búist er við að tækni- og þekkingarsamvinna  haldist áfram milli Mercedes Benz og Chrysler. En augljóst má vera að hið sameiginlega nafn á samsteypu Benz og Chrysler – DaimlerChrysler verði úr sögunni og hvort fyrirtæki um sig fá á ný sín gömlu nöfn.

Þar sem engar almannatryggingar fyrirfinnast í Bandaríkjunum  né opinber heilsugæsla eins og tíðkast í Evrópu er allt slíkt samningsatriði milli starfsmanna og fyrirtækja. Á síðasta áratug síðustu aldar var uppsveifla í bandaríska bílaiðnaðinum og þeir samningar um sjúkratryggingar og eftirlaun sem þá voru gerðir hafa orðið bílafyrirtækjunum  afar þungir í skauti á tímum minnkandi eftirspurnar og harðnandi samkeppni við innflutta bíla.

Gamli hetjuforstjóri Chrysler Lee Iacocca, var í viðtali við sjónvarpsstöðina CNN nýlega. Þar sagði hann að eina lausnin sem dygði fyrir bandaríska bílaiðnaðinn í Bandaríkjunum væri sú að ríkið tæki við heilsutryggingum starfsfólksins – kæmi í raun á almannatryggingakerfi eins og tíðkast á Norðurlöndunum og í V. Evrópu.

Lee Iacocca varð forstjóri Ford  í Bandaríkjunum í byrjun sjötta áratugar síðustu aldar. Að hans frumkvæði var hinn frægi „sportbíll fátæka mannsins:“ Ford Mustang til. Iacocca tók við stjórn Chrysler á miklum erfiðleikatímum í upphafi níunda áratugarins. Undir hans stjórn kom Chrysler fram með nýjar bílagerðir – bíla eins og Chrysler Voyager og Dodge Aries sem á sínum tíma voru miklar nýjungar í bandarískri bílaframleiðslu en stuðluðu að því að Chrysler rétti rækilega úr kútnum.