Erfiðara verður að rata um Írland

The image “http://www.fib.is/myndir/Irlandskilti.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Þeir sem ferðast um Írland á eigin vegum mega eiga von á auknum örðugleikum með að staðsetja sig þar því að í sönnum þjóðræknisanda hafa verið settar reglur um að allir vegvísar við vegamót og vegi skuli einungis vera á frumtungunni gelísku. Eru Írar nú víða að taka niður vegvísa á ensku og setja upp nýja á gelísku.
Þeir sem ferðast hafa á eigin vegum um lönd þar sem tungan og jafnvel letrið er þeim framandi, þekkja hagræði þess að áletranir á vegvísum eru á t.d. ensku auk heimatungunnar. Þannig háttar til í Japan, S. Kóreu og í vaxandi mæli í Kína og víðar. En hinir þjóðræknu Írar fara þveröfuga leið og fjarlægja enskuna og gera fólki það þannig ekki auðveldara að ferðast um á eigin vegum.
Þessi málhreinsun nær enn sem komið er aðeins til vesturhéraða Írlands norðvestur af Dublin sem kallast Gaeltacht og Meath héruð og Waterfordhéraðs á Suðaustur-Írlandi. Alls eru þessa dagana að hverfa vegvísar á ensku í 2.300 þéttbýliskjörnum að sögn AP fréttastofunnar.
Samkvæmt þessum sérstæðu reglum verður einnig skylt framvegis að gefa út vegakort, ferðahandbækur og ferðabæklinga með gelískum nöfnum eingöngu. Ennþá eru þó flest vegakort og ferðahandbækur með ensku nöfnunum og sem betur fer verður ekki bannað að flytja inn slíkan varning erlendis frá.
Sem dæmi um nafnbreytingar mætti nefna að ætli maður í dag að fara eftir ferðahandbókum og aka til bæjarins Dingle í héraðinu Kerry vísa vegvísarnir við vegi og vegamót til An Daingean í Contae An Ciarrai.
The image “http://www.fib.is/myndir/IrlRoadSigns.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Verður enskan brátt útlæg af írskum vegaskiltum?