ES-nefnd í pústsvindlmálið

Nefnd Evrópusambandsins hefur sett sig í samband við bæði Volkswagen og yfirvöld í Bandaríkjunum og óskað eftir upplýsingum sem varða meint útblásturssvindl VW og innköllun VW dísilbíla í Bandaríkjunum.  Evrópusambandið vill ganga úr skugga um hvort samskonar svindl hafi átt sér stað í Evrópu.

-Við lítum mjög alvarlegum augum á málið og við verðum að komast til botns í því hvort eitthvað svipað hafi átt sér stað í Evrópu og hvort grípa þurfi til svipaðra viðbragða og í Bandaríkjunum, segir Lucia Caudet, talsmaður ES við Reuters fréttastofuna.  

Hún sagði ennfremur að það væri í höndum hvers og eins hinna 28 ríkja ES að framfylgja reglum um útblástur bíla og ganga úr skugga um að þeir væru innan viðmiðunarmarka. Sama væri að segja um gerðarviðurkenningar bíla, en gerðarviðurkenning sem á sér stað í einu ríkjanna gildir síðan á öllu EES-svæðinu. Það væri því mikilvægt að sérhvert ríki héldi vöku sinni og kastaði hvergi til höndum í þessum efnum. Ætlunin væri að funda með yfirvöldum í hverju ríki um sig á næstunni og ræða þessi mál í smáatriðum.