ESC í bílana

http://www.fib.is/myndir/CooseESC.jpg
Veldu ESC segir á plakatinu við hlið Max Mosley forseta FIA.

Nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna sem skipuð var að frumkvæði FIA, alheimssamtaka bifreiðaeigendafélaga og bifreiðaíþrótta, krefst þess að ESC skrensvörn eða stöðugleikabúnaður verði skyldubúnaður í öllum nýjum fólksbílum, sendibílum og léttum vörubílum (pallbílum) frá og með árinu 2012.

Bandaríkjamenn eru einna lengst komnir í því að innleiða ESC (Electronic Stability Control) í fólksbíla, því að á síðasta ári lagði stofnun að nafni Federal Motor Vehicle Safety Standard það til, að ESC yrði staðalbúnaður í öllum bílum sem almenningur kaupir og ekur dags daglega frá og með 2012. Bandaríska þingið brá við skjótt og samþykkti lög um málið.
Evrópa hefur sem heild verið seinni til með að gera ESC að lögskyldum búnaði heldur en Bandaríkin. Misjafnt er þó hversu málið er vel komið á veg eftir löndum en að meðaltali er ESC búnaður í um helmingi allra nýrra bíla sem er svipað og í Bandaríkjunum. http://www.fib.is/myndir/Aksturstaekni.jpg

Nefndin bendir á að í öðrum heimshlutum sé ástandið mun verra: í bílaframleiðslulandinu mikla, Japan er einungis um fjórðungur nýrra bíla búinn ESC og í löndum eins og Rússlandi, Kína og Indlandi sé varla nokkur bíll með ESC búnaði.

Max Mosley forseti FIA hefur verið og er mikill baráttumaður fyrir bættu umferðaröryggi, öruggari bílum og örugari vegum. Hann segir að ESC sé sá búnaður sem næstur komi öryggisbeltunum í því að forða fólki í bílum frá limlestingum og dauða. Hann sagði þegar hann ávarpaði Evrópuþingið í Strassbourg þann 15. janúar sl. að ef ESC væri í öllum bílum í Evrópu myndi það spara minnst fjögur þúsund mannslíf á hverju einasta ári.