ESC í öllum fólksbílum í Evrópu frá áramótunum

Frá og með 1. janúar nk. verður ESC skrikvarnarbúnaður að vera í öllum nýjum bílum sem á markað koma í Evrópu. Nýjar gerðir fólksbíla munu eftir áramótin næstu ekki fást gerðarviðurkenndar og skráðar á Evrópska efnahagssvæðinu nema búnaðurinn sé til staðar í þeim. Heimilt verður þó áfram að selja þá bíla sem gerðarviðurkenningu fengu fyrir gildistöku nýju laganna, svo lengi sem þeir eru óbreyttir í meginatriðum.

Lang flestir bílaframleiðendur hafa undanfarin ár verið að fjölga jafnt og þétt þeim gerðum sem hafa ESC sem staðalbúnað. Lengi vel létu þeir þó minnstu og ódýrustu gerðirnar mæta afgangi. Renault hefur nú síðast gert ESC skrikvörn að staðalbúnaði í smábílnum Twingo á velflestum markaðssvæðum Evrópu.

ESC skrikvörn er mjög mikilvægur öryggisbúnaður sem hindrar að bílar skrensi og ökumenn missi á þeim stjórnina. Búnaðurinn er  talin vera mikilvægasta slysavörn sem fram hefur komið í bílum síðan þriggja punkta öryggisbeltin komu fram á sínum tíma.