ESP stöðugleikakerfi í alla bíla í USA

http://www.fib.is/myndir/ESP-tree.jpg
ESP-stöðugleikakerfi getur skipt sköpum.

Bandaríska umferðaröryggisstofnunin NHTSA, eða National Highway Traffic Safety Administration ... undirbýr um þessar mundir lagafrumvarp um að lögskylt verði að hafa ESP stöðugleikakerfi í öllum nýjum fólksbílum frá og með árinu 2008.Stofnunin segir ESP stöðugleikakerfi vera þá bíltækni sem næst á eftir öryggisbeltum bjargi flestum mannslífum í umferðinni. Nýjustu niðurstöður rannsókna NHTSA á umferðarslysum þar sem einn bíll á í hlut, sýna að ESP kerfi í fólksbílum minnkar líkur á dauðaslysum um 34% og í jeppum og jepplingum um 59 prósent.

Þetta er ástæða þess að NHTSA leggur nú megináherslu á ESP stöðugleikakerfið til að ná fram markmiðum um verulega fækkun dauðaslysa á bandarískum vegum á næstu árum. ESP stöðugleikakerfi eru í dag orðin staðalbúnaður í flestum nýjum fólksbílum sem seldir eru í Bandaríkjunum. En Bandaríkjamenn eru miklir aðdáendur pallbíla og sendibíla og stór hluti þeirra hefur ekki þennan búnað. NHTSA vill því lögbinda ESP í alla nýja bíla sem vega allt að 4,5 tonn að heildarþyngd. http://www.fib.is/myndir/ESP-Benzar.jpg

Samkvæmt tillögu stofnunarinnar eiga allir nýir fólksbílar að vera búnir ESP frá ársbyrjun 2008 en ESP kerfi verði innleitt í pallbílana og sendibílana í áföngum frá og með árgerð 2009 til og með 2012. Nái þetta fram að ganga, sem flest bendir til að muni gerast, verða Bandaríkin fyrst til að lögleiða rafræn stöðugleikakerfi í nýja bíla.

Um það bil fjórði hver pall-/sendibíllí Bandaríkjunum  af árgerð 2005 var búinn ESP stöðugleikakerfi.  Í Evrópu var stöðugleikabúnaður í um það bil 40% fólksbíla af árgerð 2005. Þýskaland var hins vegar í sérflokki Evrópuríkja hvað þetta varðar því að árið 2005 var ESP í 72% nýrra fólksbíla.

ESP stöðugleikakerfi eru nokkurskonar viðbót við ABS-læsivarða hemla bifreiða. Kerfið er algerlega sjálfvirkt og tölvustýrt. Það skynjar þegar bíllin skrikar eða skrensar og grípur á augabragði inn í aksturinn og ýmist hemlar eða slakar á hemlun á hverju hjóli fyrir sig í samræmi við skrik bílsins í því skyni að rétta af stefnu hans. Jafnframt grípur kerfið inn í gang vélarinnar og slakar á bensíngjöf. Kerfið dregur þannig verulega úr mistökum ökumanns, bæði þeim sem urðu til þess að bíllinn tók að skrika og eins þeim sem hann kann að gera þegar hann reynir að bjarga sér úr vandanum.

Það var þýska fyrirtækið Bosch sem upphaflega fann upp ESP stöðugleikakerfið og hóf að framleiða það. Fyrstu bílarnir með ESP voru af Mercedes Benz tegund. Evrópska EuroNCAP stofnunin mælir mjög sterklega með ESP og snemma á þessu ári sendi EuroNCAP frá sér herhvöt til bifreiðakaupenda að kaupa ekki nýja bíla nema í þeim væri ESP búnaður.

NHTSA fullyrðir að ef ESP væri í öllum bílum upp að 4,5 tonnum að heildarþyngd, myndu 10.000 færri láta lífið í umferðarslysum í Bandaríkjunum og 250.000 færri slasast. Ljóst sé því að lögleiðing ESP kerfis í alla bíla sé stærsta lífsbjörgunaraðgerð í sögu umferðar frá því að öryggisbelti í bílum og notkun þeirra var lögleidd.