Euro NCAP prófar borgarfjórhjól

Fjórhjól (Quadricycles á útlensku) sem sérstaklega eru ætluð til að nota í borgum, eru nánast óþekkt hér á landi og við vitum ekki til þess að farartæki af því tagi sem nefnd eru þung fjórhjól sé skráð hér á landi. Farartækin eru seld sem handhæg, ódýr og þægileg farartæki til að skjótast á milli húsa og borgarhverfa.

Borgarfjórhjól flokkast annarsvegar sem létt fjórhjól (L6e) og hinsvegar þung (L7e) ef þau eru 350 kg að þyngd eða meir. Þau léttu mega ná hæst 45 km hraða á klst. samkvæmt Evrópureglum. Engin slík hámarkshraðamörk gilda hins vegar um þau þungu og geta sum þeirra náð allt að 100 km hraða. Báðir þyngdarflokkarnir eru löglegir til aksturs á vegum og götum þótt oft þurfi ekki að hafa full ökuréttindi á bíl til að mega aka þeim.

En þar sem þessi farartæki eru skilgreind sem fjórhjól en ekki sem bíll, eru þau undanþegin mörgum þeim öryggiskröfum sem bílar þurfa að uppfylla og það þótt sum farartækjanna líti mjög svipað út eins og smábílar eins og t.d. Daihatsu Cuore, Smart Fortwo, Toyota IQ o.fl. Því er ekki ósennilegt að einhverjir geti hugsað sér að kaupa svona fjórhjól í stað þess að kaupa sér einhvern fyrrnefndra smábíla. Einmitt þess vegna ákváðu leiðtogar Euro NCAP stofnunarinnar að árekstursprófa fjórar gerðir umræddra borgarfjórhjóla. Niðurstaðan varð í stuttu máli sú að í öryggislegu tilliti stóðust fjórhjólin fjögur smábílunum enganveginn snúning.

Euro NCAP prófaði árekstrarþol fjórhjólanna gagnvart framaná- og hliðarárekstri. Árekstrarnir voru gerðir við 50 km hraða á klst og framaná-áreksturinn var gerður framan á mitt fjórhjólið. Að öðru leyti var tilraunin gerð að mestu með sama hætti og þegar bílar eru árekstrarprófaði. En vegna þess eðlismunar sem er á fjórhjólunum og bílum þótti ekki hægt að gefa stjörnur á sama hátt og bílum eru gefnar í árekstrarprófum Euro NCAP. Þess í stað voru gefin stig sem flest gátu orðið 16.

En meginniðurstöðurnar eru þær að umtalsverðir annmarkar eru á öryggi fólksins í öllum þessum fjórum farartækjum en þó bæði mismiklir og mismunandi, enda þótt öll hafi farartækin hafi uppfyllt þær lágmarks öryggiskröfur sem evrópsk lög gera til farartækja þessarar gerðar.

 Renault Twizy  6,0 stig af 16

http://fib.is/myndir/Twizy.jpg

Tveggja manna, rafknúinn. Eigin þyngd 474 kg. Hámarkshraði 80 km/klst. Farþegasætið er fyrir aftan ökumann. Loftpúði og fjögurra punkta öryggisbelti fyrir ökumann. Þriggja punkta öryggisbelti fyrir farþega.

Burðarvirkið stóð sig vel gagnvart bæði framaná- og hliðarárekstrum og aflagaðist lítið og virtist geta staðist jafnvel enn harðari árekstra. Loftpúði og öryggisbelti stóðust einnig vel áraunina og höfuð ökumanns (árekstrarbrúðunnar) reyndist ekki skaðast. Hætta mældist hins vegar á hálsi og hálsliðum, hnjámeiðslum og lærbrotum sem rakið er til þess að krumpusvæði eru lítil og burðarvirkið mjög stíft.

Tazzari Zero  4,0 stig af 16

http://fib.is/myndir/Tazzari.jpg

Tveggja manna, rafknúinn. Eigin þyngd 542 kg. Hámarkshraði 100 km/klst.

Burðarvirkið stóðst allvel framaná- og hliðarárekstra, en nánari skoðun sýndi að þolið gagnvart framaná-árekstri var við ystu mörk.

Tvær rafhlöðusamstæður eru í farartækinu og sú að framan gekk inn í fótarýmið við áreksturinn framaná. Við hliðaráreksturinn opnaðist hurðin ökumannsmegin.

Enginn/engir loftpúðar eru fáanlegir í Tazzari Zero. Þriggja punkta öryggisbelti ökumanns hélt ekki því festing þess við dyrastólpa (B-stólpann) gaf sig og höfuð tilraunabrúðunnar (ökumanns) kastaðist fram á stýrið í árekstrinum með „banvænum“ afleiðingum.

 

Club Car Villager 2+2 LSV  2,0 stig af 16

http://fib.is/myndir/CLubCar.jpg

Fjögurra manna, rafknúinn. Eigin þyngd 541 kg. Hámarkshraði 35 km/klst.

Vegna þess að farartækið kemst einungis á 35 km hraða þá sýnir árekstrarprófið fyrst og fremst hvað gerist ef annað farartæki rekst framaná þetta. Við áreksturinn gekk stýrið upp og inn um hálfan metra og höfuð ökumannsbrúðunnar skall á miðju stýrisins með „banvænum“ afleiðingum. Því til viðbótar greindist stórhætta á alvarlegum hálsmeiðslum og beinbrotum á brjóstkassa og lærleggjum.

 

Ligier IXO JS Line 4 Places  2,0 stig af 16

http://fib.is/myndir/Ligier.jpg

Fjögurra manna, 505 rúmsm bensínvél. Eigin þyngd 465 kg. Hámarkshraði 70 km/klst.

Burðarvirki bílsins aflagaðist illa í framaná-árekstrinum. Fremri dyrastólparnir og framrúðuumgjörðin rifnuðu nánast hvort frá öðru og fótarýmið sem er úr trefjaplasti rifnaði mjög og greinilegt var að farartækið þoldi alls ekki harðari árekstur. Við hliðarárekstur opnuðust báðar hliðardyrnar og skottlokið sömuleiðis.

Engir loftpúðar eru í farartækinu. Þriggja punkta öryggisbeltin í framsætunum slitnuðu frá dyrastólpanum (B-stólpanum). Höfuð ökumannsbrúðunnar skall á miðju stýrisins við áreksturinn með „banvænum“ afleiðingum. Hætta á alvarlegum höfuðmeiðslum og beinbrotum á brjóstkassa.