Euro NCAP-sjörnurnar yfir Renault Megane hafa fölnað

Fyrir sex árum reyndist Renault Mégane vera fimm stjörnu bíll í árekstrarprófun Euro NCAP. Nú reynist hann ná einungis þremur stjörnum. Það er þó ekki vegna þess að bíllinn hafi versnað svona mikið, heldur það að kröfurnar bak við stjörnurnar fimm eru miklu meiri og harðari nú en áður. Að þessu sinni hafa sex bílar verið árekstrarprófaðir. VW Golf Sportsvan er sá eini þeirra sem nær fimm stjörnum.

VW Golf Sportsvan er stærri gerð Golf og hét áður Golf Plus. Hann náði sem áður segir fimm stjörnum, Sá sem næstur honum varð er einskonar heimilisútgáfa af sendibílnum Ford Tourneo Courier en hann hlaut fjórar stjörnur. Þrjár stjörnur hlutu svo Peugeot 301 og Citroën C-Elysée sem eru að mestu leyti einn og sami bíllinn. Þessir bílar eru aðallega á rússneska markaðinum og eru ekki í boði í V. Evrópu. Að síðustu er það svo MG3 sem framleiddur er í Kína að mestu leyti en lokahönd er lögð á hann í gömlu MG verksmiðjunum í Bretlandi. Þessi bíll hlaut sömuleiðis þrjár stjörnur.