EuroRAP á Íslandi

http://www.fib.is/myndir/Rapparar2.jpg
Vegrýni á Íslandi undir merkjum EuroRAP (European Road Assessment Program) hófst formlega í morgun. Til EuroRAP verkefnisins er stofnað af FIA, heimssamtökum bifreiðaeigendafélaga og er það unnið í hverju landi fyrir sig af bifreiðaeigendafélögunum og starfsmönnum þeirra. Hér á landi eins og annarsstaðar er verkefnið því á vegum FÍB en styrkt af fyrirtækjum og opinberum stofnunum. Starfsmenn FÍB hafa sótt námskeið í tækni og aðferðafræði EuroRAP að undanförnu og bifreið sú sem nokkur íslensk fyrirtæki hafa lagt fram til þessa mikilvæga starfs hefur verið búin þeim tækjum og tæknibúnaði sem nauðsynlegur er.

Hér á landi eru nú staddir tveir verkfræðingar sem starfa hjá sænskri verkfræðistofu sem hannað hefur allan hugbúnað sem notaður er í EuroRAP vegrýni. Þessa stundina eru verkfræðingarnir, þau Sofia Blomgren og Anders Sno, að yfirfara búnaðinn og lokastilla hann og prófa. Í samtali við fréttavef FÍB fyrir stundu sögðu þau að tækin og allur búnaður virkaði mjög vel og væri allur frágangur á honum í bílnum með því allra besta sem þau hefðu séð til þessa.

Það sem felst í EuroRAP vegrýni er fyrst og fremst það að vegir eru skoðaðir og öryggi þeirra fyrir vegfarendur metið út frá staðalbundnum forsendum. Þetta er gert með því að aka um vegina og skoða bæði sjónrænt og með rafeindatæknibúnaði. Í EuroRAP bílnum eru hreyfi- og kyrrmyndavélar, GPS staðsetningarbúnaður, nákvæmir vegalengdar- og hraðamælar og tölvubúnaður sem hleður inn í sig upplýsingum bæði sjálfvirkt og handvirkt. Úr þessum upplýsingum er svo unnið sérstakt EuroRAP áhættumat sem síðan verður aðgengilegt öllum hér á FÍB vefnum.
http://www.fib.is/myndir/Rapparar3.jpg
Sænsku verkfræðingarnir frá EuroRAP, þau Anders Sno og Sofia Blomgren ásamt Ólafi Kr. Guðmundssyni umsjónarmanni EuroRAP á Íslandi. Ólafur er til hægri á myndinni.

 

Þessir aðilar styrkja FÍB-EuroRAP

 http://www.fib.is/myndir/StyrkjaEuroRAP.jpg