EuroRAP á Íslandi

The image “http://www.fib.is/myndir/AclassRAP.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Öryggisúttekt FÍB á íslenskum vegum undir merkjum EuroRAP, European Road Assessment Programme hefst í dag kl. 13.30 þegar félagið fær formlega afhenta Mercedes Benz A-150 bifreið til verkefnisins. Um leið verður verkefnið kynnt blaða- og fréttamönnum og formaður FÍB, Árni Sigfússon, Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Birgir Hákonarson forstöðumaður umferðaröryggissviðs Umferðarstofu flytja stutt ávörp og Ólafur Kr. Guðmundsson stjórnarmaður í FÍB lýsir verkefninu, tilgangi þess og aðferðafræði. Kynningarfundurinn verður í húsnæði bílaumboðsins Öskju að Laugavegi 170 og hefst kl. 13.30. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Verkefnið hefst með því að skoða umferðarmestu og slysamestu vegi á Íslandi, og eru vegunum gefnar stjörnur útfrá öryggisþáttum í hönnun og umhverfi veganna. Þetta er hliðstætt því sem gert er við nýja bíla undir merkjum EuroNCAP, European New Car Assessment Programme. EuroRAP og EuroNCAP eru systurverkefni, sem bæði gefa stjörnur með tilliti til öryggis. Markmiðið er: „5 stjörnu bílar á 5 stjörnu vegum.” Geta má þess að Mercedes Bens A150 hlaut einmitt fimm stjörnur í árekstrar- og öryggisprófi EuroNCAP fyrr á þessu ári. EuroRAP-verkefni FÍB er unnið í samvinnu við samgönguráðuneytið og Umferðarstofu, sem hafa lagt til fjármagn til að koma því af stað. Að rekstri EuroRAP bifreiðarinnar standa auk Bílaumboðsins Öskju, Goodyear, Olíufélagið hf, Lýsing hf, Landflutningar Samskip hf. og Vátryggingafélag Íslands hf.