Hægt að skoða stjörnugjöf fyrir íslenska vegakerfið

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, opnaði í morgun fyrir aðgang að gagnagrunni EuroRAP þar sem hægt verður að skoða stjörnugjöf EuroRAP fyrir íslenska þjóðvegakerfið. FÍB hefur annast framkvæmd EuroRAP öryggisúttektarinnar á þeim 4.200 km af þjóðvegum landsins sem búið er að skrá í gagnagrunn EuroRAP.

Aðgangurinn mun án efa koma að góðum notum af veghöldurum, fjölmiðlum, tryggingarfélögum, stjórnmálamönnum og mörgum fleirum sem láta sig varða aukið öryggi í umferðinni.

Það kom fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgönguráðherra, að það væri óviðunandi hversu margir farast í umferðinni og verða fyrir alvarlegum meiðslum. Hann sagði það sameiginlegt markmið að bæta vegina og umferðaröryggi.

,,Það skipti miklu máli að kortleggja þetta með þessum hætti en stjórnvöld hefðu styrkt verkefnið sem FÍB hefði unnið,“ sagði Sigurður Ingi.

Því fleiri stjörnur sem vegakaflar fá telst öryggi þeirra meira. Þess má geta að samkvæmt öryggismati EuroRAP eru aðeins 25% íslenskra vega með þrjár stjörnur eða meira. Markmiðið hins vegar er að allir vegir verði að lágmarki þriggja stjörnu. Mörgu eru ábótavant í íslenska vegakerfinu en alls er hægt að sjá stjörnugjöf fyrir 4.200 km vegkafla sem kortlagðir voru með sérútbúnum bíl sem studdist við myndbandsupptökuvélar.

Um 75% af íslenska vegakerfinu er með eina eða tvær stjörnur í öryggisúttekt EuroRap. Fyrir hverja eina stjörnu sem vegur uppfærist sýnir reglan að slysum fækkar um helming. Á árunum 2013-2017 fórust 69 í umferðinni og 936 slösuðust alvarlega.

James Bradford, þróunar- og tæknistjóri iRAP og EuroRAP sagði á fundinum í morgun í Hörpu að 34% vegakerfisins fengi aðeins tvær stjörnur í matinu og 40,9% vegakerfisins fær lægstu einkunn, eina stjörnu.

,,Það er vinna að baki en það er líka mikil vinna framundan. Þetta sýnir okkur að öryggi veganna skiptir öllu máli.Öryggið verður alltaf að vera í fyrirrúmi. Það hefur ennfremur komið skýrt í ljós að þegar umferðarhraðinn er lækkaður í þéttbýli og umferðareftirlit er eflt þá fækkar slysunum til muna,“ sagði James Bradford á fundinum.

Umsókn um aðgang að ViDA upplýsingagrunni EuroRAP fyrir Ísland er hægt að nálgast hér.

EuroRap eru samtök 29 bifreiðaeigendafélaga í jafnmörgum löndum Evrópu, stofnuð árið 1999 að frumkvæðiFIA alþjóðasamtaka bifreiðaeigendafélaga. Hlutverk EuroRAP/FÍB er að framkvæma gæðamat á vegum út frá slysasögu og mati á öryggi veganna samkvæmt samhæfðum aðferðum.  EuroRAP er systurverkefni EuroNCAP, sem árekstrarprófar bíla og gefur stjörnur miðað við öryggi. Meginmarkmið beggja verkefnanna er að fækka verulega banaslysum og alvarlegum slysum í umferðinni.  

Hér að neðan er hægt að horfa á upptöku frá kynningarfundi FÍB um EuroRAP öryggismat íslenska vegakerfisins.

 

Dagskrá fundarins var:

1. Steinþór Jónsson, formaður FÍB flytur stutt ávarp.
2. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra opnar formlega fyrir almennan aðgang á netinu að gagnagrunni EuroRAP fyrir Ísland.
3. James Bradford þróunarstjóri EuroRAP kynnir EuroRAP öryggisúttektina og hvernig hægt er að nýta gagnagrunninn til að auka öryggi vegfarenda.
Búið er að skrá 4.200 km íslenska vegakerfisins í gagnagrunninn.
4. Ólafur Guðmundsson tæknistjóri EuroRAP á Íslandi segir frá vinnunni við skráningar og mælingar vegakerfisins.
5. Stutt ávörp: Jónas Snæbjörnsson fulltrúi vegamálastjóra og Þórólfur Árnason forstjóri Samgöngustofu.

James Bradford 

Steinþór Jónsson

Jónas Snæbjörnsson

Ólafur Guðmundsson