Evrópska vetnisvegferðin 2012
Á morgun, 13. september, leggja sjö vetnisknúnir bílar frá fjórum bifreiðaframleiðendum af stað í langt ferðalag milli helstu stórborga Evrópu. Þetta ferðalag er til að undirstrika þá staðreynd að vetnið sem orkugjafi fyrir bíla er ekki eitthvað sem kemur einhverntíman í óljósri framtíð. Vetnið sé komið til að vera.
Framleiðendurnir fjórir eru Daimler, Honda, Hyundai og Toyota og ferðalagið kallast Evrópska vetnisvegferðin 2012 eða European Hydrogen Road Tour 2012. Hópurinn mun hafa viðkomu í níu stórborgum í Evrópu. Markmið ferðalagsins er að auka þekkingu á vetnistækninni hjá valdhöfum, blaðamönnum, stjórnmálamönnum, stjórnendum fyrirtækja og almenningi og meginboðskapurinn er sá að efnarafalstæknin er tilbúin fyrir markaðinn en innviðina fyrir vetnisknúnar samgöngur vantar.
Viðkomustaðir á vetnisvegferðinni 2013 |
Í mörgum þeirra borga sem heimsóttar verða hafa rafbílar með vetnis-efnarafal sem aðeins „pústa“ frá sér vatnsgufu aldrei sést áður. Almenningi verður gefinn kostur á því að aka bílunum og fræðast um tæknina og eldsneytið hjá tæknimönnunum sem fara með fólki í ökuferðina. Og auk ökuferðanna verða einnig haldnir fræðslufundir, bæði fyrir almenning og sérvalda boðsgesti.
Michel Gardel framkvæmdastjóri upplýsinga- og umhverfissviðs Toyota Motor Europe segir við fjölmiðla að Toyota hafi stundað rannsóknir og þróun efnarafala í 20 ár og Toyota rafbílar með efnarafal verði tilbúnir fyrir markaðinn strax 2015. Vetnisvegferðin 2012 sé því kjörið tækifæri fyrir bæði Toyota og aðra framleiðendur til að sýna evrópskum neytendum fram á það svart á hvítu að vetnisbíltæknin er tilbúin hér og nú.
Dr. Christian Mohrdieck stjórnar þróunarvinnunni við efnarafalana hjá Daimler. Hann segir að rafbílar með vetnis-efnarafal séu alveg lausir við ágalla rafhlöðu-rafbílanna. Vetnisbílarnir hafi drægi á við hefðbundnu bensín- og dísilbílana og örstutta stund taki að fylla á vetnisgeymana. Það eina sem á vanti nú séu innviðirnir – afgreiðslustöðvarnar fyrir vetnið.
Thomas Brachmann hjá rannsókna- og verkfræðideild Honda í Evrópu segir að hjá Honda hafi menn fulla trú á því að rafbílar með vetnis-efnarafal framtíðarlausn fyrir samgöngurnar í veröldinni. Tæknin býður upp á hagkvæmar, mengunarlausar og hljóðlátar samgöngur og vetnisvegferðin um Evrópu 2012 hljóti að vera kærkomið tækifæri fyrir almenning, fjölmiðla og valdamenn til að kynna sér málið og taka tæknina upp á sína arma.
Allan Rushforth framkvæmdastjóri Hyundai Motor Europe tekur í sama streng og segir að hjá Hyundai séu menn stoltir yfir að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þessu verkefni. Hyundai ix35 vetnisrafbíllinn sýni líka að Hyundai er fúlasta alvara með að veðja á vetnistæknina. Sjálfir vetnis-rafbílarnir standi ekki bara jafnfætis hefðbundnum bílum að notagildi heldur hafi jafnframt fjölmargt umfram þá. Eftir því sem sjálfum bílunum og vetnisafgreiðslustöðum fjölgi muni bílarnir þróast og batna, loftmengunin minnka og draumsýnin um sjálfbærar samgöngur verði smám saman að veruleika.