Evrópuráðið vill afnema skráningargjöld á bíla

The image “http://www.fib.is/myndir/Lazlo.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
László Kovács.
Evrópuráðið hefur lagt fram tillögu að reglugerð um notkunarskatta á fólksbíla. Tillagan felur í sér gagngerar breytingar frá núverandi tilhögun þessara mála í ríkjunum á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilgangurinn með tillögunni er sá að örva innri markað svæðisins. Það á að nást með því að fjarlægja hindranir sem eru nú á því að flytja með sér bíla úr einu landi til annars. Þær hindranir eru innbyggðar í bæði skattalög og reglur landanna um ökutæki en einnig í lög og reglur um skráningu ökutækja og nýskráningargjöld. Nýju reglurnar eiga sömuleiðis að stuðla að betri nýtingu eldsneytis og sjálfbærri orkunotkun og að minni útblæstri á koltvíildi frá bílum.
László Kovács orkumála-, skatta- og tollakommissar Evrópusambandsins segir í fréttatilkynningu um málið að náið samráð um tillöguna hafi verið haft við fulltrúa einstakra Evrópusambandsríkja og að mikill stuðningur sé við þær meginhugmyndir sem koma fram í tillögunni. Þær lúti að því að útrýma skráningargjöldum á bíla enda séu skráningargjöld ávísun á tvísköttun á evrópska borgara og á mismunun innan evrópska bílaiðnaðarins. Nýju reglurnar eigi einnig að hvetja bílakaupendur til að velja frekar umhverfisvænni bíla.
Samkvæmt tillögunni á að útrýma skráningargjöldum í áföngum á fimm til tíu árum. Til að einstök ríki tapi ekki tekjum geta þau á móti hækkað í áföngum notkunarskatta á bíla og ef nauðsynlegt reynist eins og það er orðað í tilkynningunni – hækkað aðra skatta á bíla.
Aðlögunartíminn verður allt að tíu ár sem fyrr segir. Aðlögunartíminn er hafður þetta langur til að ríki sem leggja mjög há skráningargjöld á bíleigendur, eins og T.d. Danmörk, fái ráðrúm til að umbreyta skattakerfi sínu og laga það að breytingunni.