Evrópusambandið - auknar umhverfiskröfur til nýrra bíla

Bílar framtíðarinnar eiga að vera umhverfisvænni.  Samkvæmt nýrri tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins mega nýir fólksbílar að meðalatali losa 95 grömm af koltvísýringi á hvern ekinn kílómeter frá og með 2020. Þetta er 27% samdráttur miðað við núverandi kröfur um 130 gr/km sem koma að fullu til framkvæmda 2015.

Haft er eftir Connie Hedegaard danska umhverfisráðherranum á heimasíðu FDM (Félag danskra bifreiðaeigenda) að tillagan verji umhverfið og auki sparnað neytenda.  Ráðherrann segir að losunarmarkmiðin skerpi samkeppnishæfni bílaframleiðenda í Evrópu og efli nýsköpun.

Þrýstingur á bílaframleiðendur

Nýju umhverfiskröfurnar þrýsta á bílaframleiðendur um framleiðslu á mun eyðslugrennri bílum sem er jákvætt fyrir neytendur. Framkvæmdastjórnin áætlar að meðalbíll sem notaður er í 13 ár geti sparað frá 3.000 til 3.500 Evrur í eldsneytiskostnað (miðað við núverandi olíuverð).  

Grænni bílafloti

Áætlað er að fólksbílar beri ábyrgð á um 12 hundraðshlutum af samanlagðri losun koltvísýrings innan Evrópusambandsins.  Þetta hlutfall lækkar með fjölgun neyslugrannra bíla.  Þessi þróun er jákvæð og samræmist kröfum samtaka bíleigenda um sparneytnari og umhverfisvænni bíla.

Dýrari bílar

Krafan um 95 gramma koltvísýrings útlosun nýrra bíla mun auka kostnað við framleiðslu þeirra.  Framkvæmdastjórn ESB áætlar nýir bílar sem mæta 2020 kröfunum muni að meðaltali vera 1.100 Evrum (um 180.000 krónur) dýrari samanborið við bíla í dag.

Hertar kröfur til vörubíla

Samkvæmt tillögum Framkvæmdastjórnarinnar þá á einnig að draga úr útlosun frá vörubílum í Evrópu.  Lagt er til að losunarmörk koltvísýrings frá vörubílum fari í 147 gr/km úr núverandi (2010) 181,4 gr/km.

Tillögur Framkvæmdastjórnar ESB fara nú fyrir Evrópusambandsþingið og ráðherraráðið.