Evrópusambandið gagnrýnir Volkswagen

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sendi frá sér fréttatilkynningu í þessari viku.  Í tilkynningunni er Volkswagen samsteypan gagnrýnd fyrir það að hafa ekki komið nægilega til móts við bíleigendur sem urðu fyrir barðinu á stóra útblásturs hneykslinu.  Það er mat framkvæmdastjórnar ESB að Volkswagen hafi átt að gera betur.

Framkvæmdastjórnin og neytendaráðið segja það vonbrigði að Volkswagen taki ekki fulla ábyrgð á mögulegum vandamálum eða göllum eftir viðgerð og uppfærslu dísilvélanna.

ESB hefur gefið út lokaskýrslu um eftirmála Volkswagen útblásturssvindlsins sem opinberað var haustið 2015. Fram kemur í skýrslunni að búið er að uppfæra hugbúnað í um 80 prósent þeirra Volkswagen bíla í Evrópu sem búnir voru hugbúnaðinum sem hannaður var til að svindla á útblástursprófunum eftirlitsaðila.

Í kjölfar hneykslisins lofurðu stjórnendur Volkswagen að tryggja fullt gagnsæi varðandi allar upplýsingar um orsakir útblásturssvindlsins sem snerti um ellefu milljónir dísilbíla frá fyrirtækinu.  Jafnframt var tilkynnt að verkfræðingar Volkswagen legðu nótt við dag í hönnun tæknilausna sem nýta mætti til að uppfæra svindl-dísilbílana þannig að útblástursmengun þeirra væri í samræmi við gerðarviðurkenningar.

Ekki fullnægjandi gagnsæi 

Volkswagen er gagnrýnt fyrir skort á gagnsæi m.a. hafi fyrirtækið kosið að trúnaðarstimpla sjálfstæða úttekt lögmannsstofu í stað þess að sýna hana.  Í Bandaríkjunum greiddi Volkswagen tugi milljarða í bætur vegna útblásturssvindlsins enda njóta neytendur þar sterkrar neytendalöggjafar.  Neytendaverndin er lakari varðandi svona svik innan evrópska efnahagssvæðisins.  ESB og Volkswagen gengu frá samningi 2016 sem kallaður var ,,Trust Building Measure“ eða ráðstafanir til að endurheimta traust.

Í samningnum lofar Volkswagen endurbótum og viðgerð á öllum svindlbílum í Evrópusambandinu.  Jafnframt átti að halda neytendum vel upplýstum og tryggja að þeir yrðu ekki fyrir óþægindum vegna framkvæmdarinnar. Samningurinn gildir til ársloka 2018 og Volkswagen hefur lofað leiðrétttingum og umbótum komi til vandamála í tengslum við uppfærslurnar.  Í samningnum eru engin ákvæði um bætur til evrópskra bíleigenda.

Lokaskýrsla framkvæmdastjórnar ESB

Í lokaskýslunni er Volkswagen samsteypan gagnrýnd fyrir ófullnægjandi upplýsingar um framvindu uppfærsluátaksins samkvæmt samningnum frá 2016. Til dæmis hefur Volkswagen ekki getað ábyrgst að uppfærsla dísilvélanna hafi ekki neikvæð áhrif á afköst, vélarafl og eldsneytisnotkun bílanna. 

Framkvæmdastjórnin telur að Volkswagen hafi átt að viðurkenna afdráttalaust gagnvart neytendum að útblásturssvindlið braut gegn lögum og reglum ESB. Volkswagen viðurkenndi brot á lögum í Bandaríkjunum og borgaði sektir þar en það á ekki við um Evrópu.

Fréttatilkynning Evrópusambandsins má nálgast hér.