Evrópusambandið þrýstir á bílaframleiðendur

http://www.fib.is/myndir/Oliuskipti.jpg

Evrópuráðið í Bruxelles hefur tilkynnt bílaframleiðendum að þeir skuli láta viðgerðaverkstæði utan þeirra eigin þjónustuneta fá gagnagrunna og tækniupplýsingar um bílana. Þessar upplýsingar og gagnagrunnar eru nauðsynlegir til að „lesa“ tölvur bíla og finna bilanir í bílunum. Án þeirra er verkstæðum illmögulegt að þjónusta bílana.

Bílaframleiðendur hafa margir hverjir verið tregir til að láta þessar upplýsingar af hendi og til að fara á svig við reglur þar um, hafa þeir verðlagt gögnin svo hátt að frjálsu verkstæðin hafa einfaldlega ekki efni á að eignast þau.

Til að skerpa á reglunum og til að ýta á bílaframleiðendur hefur Evrópuráðið nú tilkynnt bílaframleiðendum að þeir sem ekki láta orðalaust af hendi þessar upplýsingar til þeirra verkstæða sem þess óska, muni ekki fá nýjar bílagerðir sínar gerðarviðurkenndar innan Evvrópska efnahagssvæðisins. Þetta hljóta að teljast nokkur tíðindi fyrir þá sem hingað til hafa talið að bílaframleiðendur geti farið sínu fram, haldið þessum upplýsingum fyrir sig og sín þjónustuverkstæði og verðlagt þjónustu og viðhald bíla að geðþótta með því að útiloka samkeppni í þjónustu og viðhaldi.

Búist er við að lagafrumvarp um þetta efni, sem eru reyndar hluti nýrra Euro-5 mengunarlaga, verði að lögum fyrir nýárið og taki að fullu gildi 2009. Automotive News í Bandaríkjunum segir að Evrópuráðið hafi á grundvelli núgildandi þegar höfðað mál gegn Toyota, Fiat, GM og Daimler-Chrysler fyrir að hafa neitað að afhenda verkstæðum utan þeirra eigin þjónustuneta umræddar upplýsingar. Blaðið segir að ástæða neitunar bílaframleiðenda sé sú að hagnaður sé enginn af sölu nýrra bíla heldur af því að þjónusta þá.

Talsmenn bílaframleiðenda eru lítt kátir með hörku Evrópuráðsins og hafa sumir þeirra sagt að afskipti Evrópuráðsins af þessum málum séu óþolandi.