Eyðimerkur-Citroën í Genf

http://www.fib.is/myndir/Citroen-eydim.gamall.jpg
Citroën bíllinn sem fyrstum bíla var ekið yfir Saharaeyðimörkina og síðar eftir endilangri Afríku.

Árið 1922 var fyrsta bílnum ekið yfir Sahara eyðimörkina. Bíllinn var þriggja drifhásinga Citroën vörubíll með beltum að aftan í stað hjóla. Tveimur árum síðar var samskonar Citroën bíl ekið eftir endilangri Afríku. Citroën minnist þessara miklu leiðangra á bílasýningunni í Genf með því að sýna þar mikinn sérbyggðan, nýmóðins þriggja hásinga eyðimerkurbíl og er sá byggður á grunni Mitsubishi Outlander sem í Citroën útgáfu nefnist C-Crosser.

André Citroën stofnandi Citroën var mikill markaðsmaður auk þess að vera mikill frumkvöðull og brautryðjandi í bílasmíði. Meðal stórvirkja hans eru gamli Citroën bragginn og stóri fólksbíllinn á þess tíma mælikvarða; Traction Avant sem var framhjóladrifinn og með sjálfberandi yfirbyggingu. Á slíku byggingarlagi höfðu menn litla trú á þriðja áratugi síðustu aldar og tók þá André það til bragðs til að sannfæra fólk um að sjálfberandi yfirbygging væri níðsterk, að hann boðaði alla helstu fjölmiðla til fundar í malargryfjum utan við París þar sem Traction Avant bílum var steypt ofan í djúpar gryfjurnar og velt og voru atburðirnir kvikmyndaðir í bak og fyrir. Líklega eru þetta fyrstu áreksturspróf sögunnar sem þarna fóru fram.http://www.fib.is/myndir/Citr-eydim-nyr.jpg

Afríkuleiðangrar hans árið 1922 og 1924 voru af sama meiði, ætlaðir til að vekja athygli á bílunum og vörumerkinu og tókust svo vel að þeir urðu heimsfrægir á sínum tíma.
Þessir torfærubílar Citroën voru þá (eins og nú) sérbyggðir bílar með tveimur drifhásingum að aftan en beltum þar í stað hjóla. Afríkuleiðangurinn árið 1924 stóð í heila 10 mánuði og eknir voru rúmlega 28 þúsund kílómetrar.

Ekki lét André Citroën þar við sitja því haldið var í enn einn leiðangurinn árið 1932 frá Beirút í Líbanon til Bejing í Kína sem þá var nefnd Peking. Ökuleiðin var 15 þúsund kílómetrar og leiðin lá yfir Himalayafjöll og Góbí-eyðimörkina. Þessi leiðangur vakti sömuleiðis heimsathygli.