F-pallbíllinn er vinsælasti bíll Bandaríkjanna

Bandaríkin eru sannarlega mesta pallbílaland heimsins. Ekki einu sinni heimsmarkaðsverð eldsneytis á hverjum tíma virðist geta neinu breytt um það.

Ef bensínverðið lækkar eykst salan á stærstu pallbílunum og ef það stígur í hæstu hæðir kaupa Bandaríkjamenn bara minni pallbíla. Og eins og fjöldamörg undanfarin ár eru Ford F-pallbílarnir lang vinsælastir pallbíla en ekki bara það; heldur líka er Ford F söluhæsti bíll Bandaríkjanna og hefur verið það árum saman.

Þrjár mest seldu bíltegundirnar í Bandaríkjunum eru sem sagt allar pallbílar. Þar trónir Ford F í efsta sætinu. Næstur er Chevrolet Silverado og í þriðja sæti er Ram Pickup frá Chrysler.

Allir eru þessir bílar bandarískir í húð og hár og byggðir samkvæmt eldgömlu hefðinni sem er sú að burðarvirkið er stálgrind. Í henni er komið fyrir vél, gírkassa, drifi og hjólabúnaði. Ofan á grindina er svo yfirbyggingin skrúfuð föst. Svona var þetta gert í upphafi bílaaldar. Svona var það gert þegar fyrsta kynslóð F- pallbílalínunnar frá Ford kom fyrst fram árið 1948 og svona er þetta enn gert í grundvallaratriðum að því undanteknu með Ford F, að nú er yfirbyggingin smíðuð úr áli.

Núverandi kynslóð Ford F-línunnar er sú 13. síðan 1948 og sú vinsælasta til þessa. Söluaukningin fyrstu sjö mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra varð 8,8 prósent. Velgengni Ford F pallbílalínunnar á sinn þátt í því að Ford er nú mest selda bíltegundin í Bandaríkjunum og komin fram úr Toyota. GM er svo í þriðja sæti.

En þegar það er skoðað hvers konar gerðir bíla sést að pallbílar eru uppáhaldið síðan koma hefðbundnir fólksbílar og jeppar og jepplingar. Þeir raðast í 4-11. sæti og eru allir japanskir að uppruna eins og sjá má af töflunni. Bílarnir í 12-15 sæti eru svo bandarískir.

Vinsælustu bílarnir í Bandaríkjunum:

1. Ford F-lína

461'

2. Chevrolet Silverado

328'

3. Ram pickup

271'

4. Toyota Camry

234'

5. Honda Civic          

223'

6. Toyota Corolla

214'

7. Honda Accord

201'

8. Toyota RAV4

198'

9. Nissan Altima

198'

10. Honda CR-V

195'

11. Nissan Rouge

182'

12. Ford Escape

182'

13. Ford Fusion

171'

14. Ford Explorer

148'

15. Chevrolet Equinox

143'