Fæddir undir óheillastjörnu?

http://www.fib.is/myndir/Steingeitin.jpg

Norska tryggingafélagið TrygVesta hefur skoðað í hvaða stjörnumerkjum ökumenn eru sem lent hafa í umferðaróhöppum. Fylgni hefur greinst milli óhappatíðni og þess í hvaða stjörnumerki óhappabílstjórar eru fæddir.

Umrædd rannsókn norska tryggingafélagsins nær til fleiri þúsunda tjóna sem orðið hafa á bílum undanfarin sjö ár. Kannaður hefur verið aldur ökumannanna og búseta, hversu lengi þeir höfðu haft ökuréttindi og tegund og gerð bílanna. Upplýsingafulltrúi tryggingafélagsins sagði við norska fjölmiðla að upphaflega hefðu þau sem unnu að rannsókninni sett inn fæðingardag og ár sem breytu inn í rannsóknina sér til gamans. Hið furðulega hefði þá komið í ljós að greinileg fylgni væri milli tjóna og þeirra stjörnumerkja sem ökumenn höfðu fæðst í.

„Þegar við samkeyrðum slys og fæðingarstund ökumannanna kom hið furðulega í ljós að þeir sem fæddir eru í stjörnumerkinu Steingeitinni (21. Des. – 20. Jan.) eru 2,5% líklegri til að valda slysum en aðrir,“ segir upplýsingafulltrúinn við Nettavisen í Noregi. Samkvæmt henni er þetta tölfræðilega marktækur munur sem nær til bæði ábyrgðar- og kaskótjóna. Steingeitin er eina stjörnumerkið sem sýnir tölfræðilega marktækan áhættumun.

Danska dagblaðið Jyllands Posten hafði af þessu tilefni samband við tvo stjörnuspekinga sem virðast hafa verið nokkuð undrandi á þessari niðurstöðu tryggingafélagsins. Þeir kveðast að óreyndu hefðu fremur trúað því að slysavalda væri frekar að finna í Hrútsmerkinu. Fólk fætt í Steingeitinni væri yfirleitt varfærið og gerði sér far um að fara að lögum og reglum, en kannski virkaði varfærnin þannig í umferðinni að steingeitarfólkið væri of lengi að hugsa sig um og ákveða hvað gera skyldi og lenti þessvegna í slysum.

Stjörnuspekingarnir hafa gert einskonar áhættumat fyrir einstök stjörnumerki sem birt er í Jyllands Posten það er svona:

Steingeitin (21.12. – 20.01.)
Óttast að gera eitthvað rangt og býst sífellt við hinu versta. Einblínir á lokatakmarkið án þess að gefa nánasta umhverfi gaum.

Vatnsberinn (20.01. – 19.02.)
Sérvitur og sjálfhverfur. Vís til að brjóta gildandi reglur þegar mikið er að gerast, eða þá bara af því honum dettur það si svona í hug allt í einu..

Fiskurinn (19.02.-20.03.)
Dreymir dagdrauma og hugurinn víðsfjarri akstrinum. Ferðast um óravíddir hugans og gleymir að horfa á veginn.

Hrúturinn (20.03. – 20.04.)
Skjóthuga, fljótur að ákveða sig, mikið keppnisskap – vill verða fyrstur.

Nautið (20.04.- 21.05.)
Traustur og rýmir gjarnan til fyrir öðrum. Getur staðið fast á eigin rétti.

Tvíburarnir (21.05.- 20.06.)
Akstur liggur vel fyrir fólki sem fætt er í tvíburamerkinu. Getur þó átt það til að gera of margt í einu, eins og að góna á fólkið á gangstéttinni, tala í farsímann eða senda SMS í akstri.

Krabbinn (21.06.- 22.07.)
Lætur tilfinningarnar ráða um of og gleymir þá að hugsa rökrétt og af skynsemi..

Ljónið (22.07.- 23.08.)
Krefst virðingar og móðgast auðveldlega og tapar þá yfirsýninni. Á til að sýna hroka.

Meyjan (23.08.-23.09.)
Of upptekin af smáatriðum og að hanga í reglubókstafnum. Tileinkar sér gjarnan rykkjótt og taugaveiklunarlegt ökulag

Vogin (23.09.-22.10.)
Á til að vera lengi að velja milli þeirra kosta sem í boði eru. Á erfitt með að ákveða sig.

Sporðdrekinn (23.10.-21.11.)
Vantar sveigjanleika. Á til að vera ör í skapi og jafnvel hefnigjarn ef hann telur að einhver hafi beitt sig órétti.

Bogmaðurinn (22.11.- 21.12.)
Lítur gjarnan á akstur sem einskæran leik og örvast og jafnvel ölvast af hraðanum.