Fær SFF milljarða króna sekt?

Samkeppniseftirlitið hefur hugsanlegt brot Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) á samkeppnislögum til meðferðar. Nánar er fjallað um málið í nýjasta hefti FÍB blaðsins. Allt bendir til að SFF hafi brotið freklega gegn sátt við Samkeppniseftirlitið um að taka ekki þátt í opinberri umræðu um verðlagningu tryggingafélaganna eða gagnrýni á gjaldtöku þeirra. Framkvæmdastjóri SFF birti grein á Vísi þar sem hún réttlætti hækkun iðgjalda og andmælti gagnrýni FÍB á gjaldtökuna.

Samkeppniseftirlitið hefur heimildir til að leggja sektir á brotleg fyrirtæki sem nema allt að 10% af ársveltu. Þar sem SFF er samtök fjármálafyrirtækja gæti Samkeppniseftirlitið lagt slíka sekt á heildarveltu þeirra allra, þ.e. banka og tryggingafélaga.