Færð og veður - beint í bílinn

Færð og veður – beint í bílinn var heiti morgunfundar Vegagerðarinnar sem var í beinu streymi í morgun. Þar var kynnt hvernig upplýsingar um færð og ástand vega verða gerðar aðgengilegar alþjóðlegum leiðsöguþjónustum en Vegagerðin hefur nú hafið útgáfu þessara upplýsinga á DATEXII (Datex2) staðli Evrópusambandsins.

DATEXII staðallinn gerir erlendum leiðsöguþjónustum kleift að sækja þær upplýsingar sem Vegagerðin birtir um vegakerfið, svo sem veður og færð, í rauntíma í leiðsögukerfum sínum hvort heldur er í farsímum eða í leiðsögukerfum bifreiða. Fulltrúi HERE Technologies verður á fundinum og fjallar um hvernig upplýsingarnar verða nýttar í leiðsögukerfum fyrirtækisins.

DATEXII er alþjóðlegur forritunarstaðall sem vel flest Evrópulönd hafa innleitt, nú síðast Noregur og Svíþjóð. Staðallinn einfaldar upplýsingagjöf fyrir vegfarendur því leiðsögufyrirtækin geta nálgast upplýsingar með samræmdum hætti milli landa og þarfnast því ekki sérlausna.

Með innleiðingu DATEXII staðalsins vonast Vegagerðin til að nauðsynlegar upplýsingar rati til vegfarenda og berist þeim á meðan á ferðalaginu stendur og geri leiðabestun skilvirkari.

Vegfarendur eiga þá að geta nálgast veigamiklar upplýsingar í rauntíma í leiðsögukerfum sínum. Stjórnvöld settu fjármagn í uppsetningu kerfisins í kjölfar óveðursins í desember 2019.