Færri nota símann undir stýri
Ný rannsókn meðal framhaldsskólanema sýnir að 14% færri nemendur töluðu í síma án handfrjálsbúnaðar undir stýri árið 2018 en 2016. Í sömu rannsókn kemur fram að 6% færri framhaldsskólanemendur senda eða skrifa skilaboð undir stýri. Aftur á móti senda fleiri nemendur Snapchat skilaboð eða leita að upplýsingum á netinu en fyrir þremur árum.
Rannsóknin var unnin af Rannsóknum og greiningu við Háskólann í Reykjavík og náði hún til allra framhaldsskólanema á landinu. Sambærileg rannsókn var unnin árið 2016 og sýnir samanburður á niðurstöðunum að í heildina hefur símnotkun framhaldsskólanema undir stýri dregist saman um 4%.
Símnotkun framhaldsskólanema undir stýri hefur minnkað um 4% frá 2016 samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem unnin var fyrir Sjóvá.
Árið 2016 svöruðu 83% nemenda að þeir notuðu símann stundum eða oftar undir stýri, árið 2018 lækkaði þessi tala niður í 79%. Þó að notkunin sé ennþá mikil þá erum við í fyrsta skipti að sjá notkunina dragast saman. Það voru til að mynda 14% fleiri nemendur sem sögðust aldrei tala í símann án handfrjáls búnaðar nú en árið 2016. 6% fleiri segjast þá aldrei senda eða svara skilaboðum undir stýri en fyrir þremur árum.
Það varpar þó ákveðnum skugga á þessa jákvæðu þróun að það mælist aukning á ákveðinni notkun síma undir stýri sem er mjög áhættusöm. Töluvert fleiri nemendur leita t.d. að upplýsingum á netinu undir stýri en árið 2016 en þar munar 5% og aðeins fleiri senda Snapchat.