Færri nýir bílar seljast í Evrópu

Eftir því sem efnahagsvandinn í Evrópu dregst á langinn verða áhrif hans á framleiðslu og sölu nýrra bíla verri – salan og framleiðslan dregst saman. Á Ítalíu er ástandið einna verst. Þar hefur sala nýrra bíla í ágúst miðað við sama tíma í fyrra minnkað um hvorki meira né minna en 20 prósent og um 11 prósent í Frakklandi. Samdrátturinn er mestur í þeim bílum sem framleiddir eru í stærstum upplögum; það er að segja smábílunum.

Sölusamdrátturinn hefur bitnað einna verst á PSA (Peugeot/Citroën). PSA gengur nú gegn um mjög erfiða tíma. Bílarnir seljast illa um alla Evrópu og sárast finnst mönnum að heimamarkaðurinn Frakkland skuli hafa brugðist jafn illa og raunin er. Fátt bendir til þess að ástandið batni í bráð og botninum virðist ekki enn náð.

Efnahagsástandið á Ítalíu er þarlendum bílaiðnaði mjög erfitt. Það sem af er árinu til og með ágústmánuði er samdrátturinn miðað við sama tímabil í fyrra 19,9 prósent. Alls hafa tæplega milljón bílar verið nýskráðir á Ítalíu það sem af er ári. Og miðað við ágústmánuð í fyrra þá varð sölusamdrátturinn 20,2 prósent miðað við sama mánuð í fyrra.

Á Spáni fjölgaði hins vegar nýskráningum um 3,4 prósent miðað við ágúst í fyrra. Ástæðan er þó ekki skyndilegur efnahagsbati, heldur það að ríkisstjórnin hefur tilkynnt skatta- og gjaldahækkanir á nýja bíla sem taka eiga gildi síðar í haust. Fólk flýtti sér því til að endurnýja bíla sína í ágústmánuði áður en hækkanirnar skella á. Ekki er talinn vafi á að hækkanirnar muni hafa þau áhrif að algert hrun verði í sölu nýrra bíla í september og í október.

PSA – Peugeot och Citroën tapaði 11 prósentum af markaðshlutdeild sinni í heimalandinu Frakklandi í ágúst m.v. sama mánuð í fyrra. Ford tapaði nokkru af sinni markaðshlutdeild bæði í Frakklandi og víðar um Evrópu. Volkswagen sem er stærsti bílaframleiðandi Evrópu tapaði 7,4 prósenta markaðshlutdeild í Frakklandi og 11,1 prósenti á Ítalíu.  En markaðshlutdeild bílaframleiðenda er greinilega á hreyfingu því að bæði Kia og Hyundai hafa stykt sig í sessi og reyndar er sömu sögu að segja af Volkswagen sem hefur styrkst í Evrópu sem heild, þrátt fyrir skellinn í Frakklandi og Ítalíu.

Fjármálakreppan hefur greinilega önnur áhrif á dýrari bílana (Premium bíla). Þannig jókst salan í Frakklandi og á Spáni á bæði Audi og BMW. Á Ítalíu eru dýru bílarnir hins vegar í sama báti og þeir ódýru. Þar virðist ekkert geta stöðvað hrunið því að sala á Audi, BMW, Mercedes, Volvo, Lexus, o.fl. dróst saman um 10 prósent eða meir.