Færri og stærri bílaframleiðendur

Eftir að Renault-Nissan og Daimler (Mercedes Benz) tilkynntu um fyrirhugað náið samstarf um umhverfismilda bíla, smábíla, sendibíla og eignatengsl hefur kviknað umræða í bílaheimum um hverjir muni rugla saman reytum næst. Sergio Marchionni forstjóri Fiat-Chrysler segir í fréttum í morgun að hann reikni með því að frönsk samsteypa muni næst ganga til samstarfs við einhverja aðra en vill enga nefna í því sambandi.

En þótt Fiat forstjórinn nefni engin nöfn þá er maðurinn þó að segja að næst muni PSA (Peugeot Citroen) ganga til samstarfs/samruna við eitthvert annað fyrirtæki. Öðrum frönskum bílafyrirtækjum er einfaldlega ekki lengur til að dreifa. Og við hverja fer þá PSA í Samstarf? Er það annski Fiat eða Ford? Um það vill Marchionni ekkert segja.

Þá hefur Reuters fréttastofan eftir Bill Ford stjórnarformanni Ford Motor Co í morgun að fyrirtækið sé opið fyrir samstarfi um „græna“ bíltækni. Af þessu tali öllu má því ráða að bílaframleiðslufyrirtækjum mun áfram fækka og ný og stærri verða til.

„Við erum alltaf með opinn huga en hugsum okkur vel um áður en við tökum stökkið,“ sagði Bill Ford. Hann sagði að markmið alls samstarfs og samruna væri ætíð að spara í fjármunum og mannahaldi en oftar en ekki hefðu þær fyrirætlanir snúist upp í andhverfu sína.

Sjálfsagt hefur stjórnarformaðurinn lög að mæla í ljósi reynslunnar. Ford hefur verið að selja frá sér ýmis bílamerki undanfarin ár og mánuði og nú síðast seldi Ford Volvo Personvagnar í Svíþjóð til hins kínverska Geely. Söluverðið var 1.8 milljarðar dollara en árið 1999, þegar Ford keypti Volvo var kaupverðið 6.5 milljarðar dollara. Ekki fór Daimler heldur vel útúr kaupum sínum á Chrysler. Þegar samstarfinu lauk 2007 hafði Daimler tapað 30 milljörðum dollara á ævintýrinu.