Falsaðir Ferraribílar

http://www.fib.is/myndir/Ferrari360modena.jpg
Ferrari Modena 360.

Lögregla á Ítalíu lagði nýlega hald á átta eftirlíkingar af Ferrari Modena 360 sem voru í byggingu. Verkstæðin sem byggðu bílana voru búin að selja sjö þeirra og átti aðeins eftir að leggja síðustu hönd á bílasmíðina fyrir afhendingu. Kaupendur stóðu í þeirri trú að þeir væru að eignast alvöru nýjan Ferrari bíl. Af og til eru falsanir af þessu tagi gerðar upptækar en þetta mál er með þeim stærri hingað til.

Heimasmíði á bílum sem eru eftirlíkingar frægra bíltegunda og -gerða er talsvert algeng og fjöldi fyrirtækja framleiða bæði grindur og yfirbyggingar fyrir þennan frístundaiðnað. Vél, gírkassi, hemlar og annað gangverk er síðan fengið úr algengum bílum. Samkvæmt fréttum um þetta ítalska mál er þessi umrædda Ferrari-bílasmíði í þessa veru og hafa verkstæðin notað hluti úr ýmsum bílategundum til að fá fram trúverðuga eftirlíkingu að Ferrari Modena 360. Tilgangurinn var hins vegar beinlínis að selja bílana sem alvöru Ferrari bíla. Og miðað við Ferrari var verðið hagstætt eða um 1,7 milljónum ísl. kr. lægra en það var á upprunalega bílnum árið 2004 – síðasta framleiðsluári Ferrari Modena 360.

Lögreglan fann bílana átta í sérstakri leit að Ferrari fölsunum. En auk Ferrari fundust einnig í byggingu eftirlíkingar af öðrum tegundum eins og Mercedes, Porsche, Lotus, Lamborghini og meira að setja Toyota. Ætlun þeirra sem voru að byggja bílana var sú að selja þá grunlausum kaupendum eins og þeir væri raunverulega þeir bílar sem þeir litu út fyrir að vera. Við nánari skoðun kom í ljós að einn hinna fölsuðu Ferraribíla var settur saman úr hlutum úr Pontiac, Mercedes og Toyota.