Fangelsisvist fyrir að aka of hratt

Sviss hefur lengi verið það Evrópuland sem einna harðast refsar þeim sem keyra yfir hámarkshraðamörkum. Nú ætla Svisslendingar að bæta um betur því eftir áramót taka gildi ný lög. Samkvæmt þeim verður í ofanálag við gríðarlega háar sektir, hægt að fangelsa hina brotlegu í allt að fjögur ár. Íslendingar sem ætla að vera akandi í Sviss eftir áramótin skyldu því gæta sín vel að fara ekki yfir hámarkshraðamörkin. Afleiðingarnar geta orðið hroðalegar.

Sektir í Sviss fyrir of hraðan akstur eru tekjutengdar. Það er gert til að gæta jafnræðis milli tekjuhópa. Hugsunin er sú að afleiðingar þess að brjóta umferðarreglurnar skulu koma jafn illa við tekjuháa sem tekjulága. Fræg er fréttin af því þegar stöndugur Svíi á Mercedes SLS var gómaður fyrir að hafa ekið á 290 km hraða á klst. á svissneskri hraðbraut. Fyrir þetta var maðurinn sektaður um 144,4 milljónir ísl. kr. og bíllinn auk þess gerður upptækur.

Og frá og með 1. janúar nk. taka Svisslendingar næsta skref í baráttu sinni gegn hraðakstri því til viðbótar við fjársektirnar kemur frá eins til fjögurra ára fangelsi eftir því hversu hratt var ekið umfram gildandi hraðamörk. Fangelsisvistarmörkin eru sem hér segir:

-Ekið á 70 km/klst. eða hraðar þar sem leyfður hámarkshraði er 30.
-Ekið á 100 km/klst. eða hraðar þar sem leyfður hámarkshraði er 50.
-Ekið á 140 km/klst. eða hraðar þar sem leyfður hámarkshraði er 80.
-Ekið á 200 km/klst. eða hraðar þar sem leyfður hámarkshraði er 120.