Farsímanotkun í akstri tekur fjögur mannslíf

Breskur vörubílstjóri hefur hlotið 10 ára fangelsisdóm fyrir að hafa verið með allan hugann við farsíma sinn í stað akstursins. Hann olli með háttalagi sínu stórslysi þar sem móðir og þrjú börn hennar létu lífið og margir slösuðust alvarlega.

Vörubílstjórinn var upptekinn við það leita í snjallsíma sínum að tónlist til að hlusta á meðan hann ók eftir A34 hraðbrautinni í Berkshire. BBC greinir frá þessu og birtir með fréttinni myndbönd úr tveimur kvikmyndavélum í vörubílnum, Önnur sýnir ökumanninn, hin myndar út um framrúðuna. Myndböndin sýna að bílstjórinn er svo upptekinn af síma sínum að hann keyrir nánast blindandi uns hann ekur aftan á kyrrstæða röð fjögurra fólksbíla og flutningabíls.

Vörubílstjórinn hélt því fram að áreksturinn hefði orðið vegna þess að hemlar vörubílsins hefðu orðið óvirkir. Það reyndist rangt. Mydböndin sýna bílstjórann upptekinn við að horfa á símann sinn. Á síðasta augnabliki lítur hann upp en þá er það um seinan. Það dapurlega er að innan við klukkutíma fyrir slysið hafði bílstjórinn undirritað skriflegt loforð við vinnuveitanda sinn um að nota ekki farsímann í akstri.