Farsímarafhlöður í bíla

http://www.fib.is/myndir/Nissan-NEC.jpg

Nissan Motor í Japan og NEC rafeindarisafyrirtækið tilkynntu á föstudag að þau hugðust stofna í sameiningu fyrirtæki sem framleiða mun líþíum-jónarafhlöður. Framleiðslan á að hefjast 2009 og rafhlöðurnar verða notaðar í rafmagns- og tvinnbíla.

Líþíum-jónarafhlöður komu fyrir allmörgum árum til greina til nota í bíla en var ýtt út af borðinu vegna þess að þær þóttu of óöruggar, ótraustar og vanþróaðar til að nota í bílum. Síðan hefur mikil rannsókna- og þróunarvinna átt sér stað og nú telja flestir þær vera lykilinn að því að gera rafbíla og tvinnbíla samkeppnishæfa við bensín- og dísilbíla í bæði verði og notagildi.

Rafhlöður í rafbílum þurfa að geta geymt í sér mikinn straum, þola að mikil orka sé tekin út af þeim á stuttum tíma og vera fljótar að taka hleðslu. Loks þurfa þær að vera léttar og fyrirferðarlitlar og síðast en ekki síst – ódýrar. Bæði hefðbundnir blý/sýrugeymar eru mjög þungir og fyrirferðarmiklir auk þess að hafa takmarkaðan líftíma í rafbílum og vera því talsvert dýrir í rekstri. Vegna þessara miklu annmarka blýgeymanna eru rafhlöður í þeim tvinnbílum sem á markaði í dag annarrar gerðar, svonefndar nikkel-málmrafhlöður og eru talsvert dýrar.

-Tækniþróunin í rafhlöðum er meginforsenda þess að rafbílar geti orðið raunverulegur valkostur innan tíðar, sagði Minoru Shinohara framkvæmdastjóri hjá Nissan á blaðamannafundinum þar sem samstarf NEC og Nissan var kynnt. Hann sagði að Nissan hefði hafið rannsóknir á sviði rafgeyma á undan flestum öðrum, eða um 1992 og komið fram fyrst með líþíum-jónarafhlöður í bæði rafbílum og venjulegum bílum. Nú þegar væri Nissan í stakk búið til að framleiða rafhlöður sem eru helmingi fyrirferðarminni og léttari en hefðbundnir geymar en samt helmingi orkumeiri. Undirbúningur að fjöldaframleiðslu og markaðssetningu á þeim væri þegar hafinn. CNN sagði frá þessu.