Farsímtöl fjórfalda umferðarslysahættuna

The image “http://www.fib.is/myndir/Farsimatal.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Fræðimenn við Háskóla Vestur-Ástralíu hafa rannsakað farsímareikninga 465 ökumanna sem lentu í umferðarslysum til að kanna hvort þeir hafi verið að tala í farsíma þegar slysið átti sér stað. Niðurstaða þeirra er sú að ökumönnum sem tala í síma við akstur er fjórfalt hættara við að lenda í umferðarslysi en þeir sem ekki liggja í símanum í akstri. En ekki nóg með það, því að samkvæmt niðurstöðum Ástralanna skiptir það engu máli til eða frá hvort ökumenn tali í síma við hjálp af handfrjálsum búnaði eða ekki.
Svipaðar rannsóknir sem gerðar hafa verið í Svíþjóð benda í sömu átt.  –Það er samtalið sjálft sem veldur því að hugur ökumannsins er einhversstaðar allt annarsstaðar en við aksturinn,- segir Thomas Carlsson formaður landssamtaka um öruggari umferð í Svíþjóð.
Mörg ríki, þar á meðal Ísland hafa fest í lög að tala megi í farsíma við akstur, sé handfrjáls búnaður notaður. Bannað er hinsvegar að tala í venjulegan farsíma með því að bera hann upp að eyranu. Thomas Carlsson leggst gegn því að slík lög verði innleidd í Svíþjóð því að það ýti undir þá trú að hættulaust sé að tala í símann ef handfrjáls búnaður er notaður en svo sé alls ekki. Símtöl undir stýri séu jafnhættuleg á hvorn veginn sem er og því eigi það að vera algjörlega bannað að tala í síma undir stýri.