Fáséður samdráttur í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar Covid-19

Covid-19 faraldurinn hefur víðtæk áhrif sem eru merkjanleg í umferðinni. Hratt dregur úr henni samkvæmt mælingum á þremur lykilmælisniðum Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, nú í mars. 

Þegar tæplega þrjár vikur eru liðnar af marsmánði 2020, hefur umferðin dregist saman um 10,1% miðað við sama tímabil á síðasta ári, sem er fáséður samdráttur á höfuðborgarsvæðinu. Samdrátturinn í sniðunum þremur jafngildir rúmlega hálfu prósentustigi á sólarhring.  

Það snið sem dregst mest saman er á Hafnarfjarðarvegi við Kópavogslæk en þar hefur orðið 15,3% samdráttur í heild, eða sem nemur tæpu prósenti á sólarhring.  Þessi samdráttur,  á Hafnarfjarðarvegi, verður að teljast gríðarlegur þar sem fá dæmi ef nokkur eru um slíkt, haldi þetta áfram eða verður viðvarandi út mánuðinn, sem alls ekki er óhugsandi vegna nýlegs samkomubanns og þróunar Covid-19 faraldursins í samfélaginu.

Fram kemur að fróðlegt verði að fylgjast með hvernig umferðin þróast á næstu vikum, sérstaklega þegar horft er til þess að hámark dreifingar sjúkdómsins gæti orðið um miðjan apríl. Það gæti því verið að vænta lágpunktar í magni umferðarinnar þá. Þannig að umferðin kann að gefa vísbendingu um það hvernig smitþróun sjúkdómsins verður.

Samdrátturinn skiptist svona niður á sniðin þrjú:

Hafnarfjarðarvegur, við Kópavogslæk    15,3%

Reykjanesbraut við Dalveg                         9,1%

Vesturlandsvegur ofan Ártúnsbrekku       7,0%