Fátæklingana af vegunum

Hvergi annarsstaðar en í olíuríkinu Dubai eru rándýrir bílar eins og Rolls Royce, Bugatti, Bentley og Ferrari jafn algengir og þar. Allr sem vettlingi geta valdið eiga bíla í þessu auðuga olíuríki enda er eldsneytið mjög ódýrt og sömuleiðis tryggingar og bílastæðagjöld. Þá eru skattar á bíla og eldsneyti engir og bensínið meira að segja niðurgreitt. Bílum hefur því farið mjög fjölgandi ár frá ári og er nú svo komið að vegakerfið ber ekki öllu meira og umferðin situr föst tímum saman. Frá þessu er greint á vefmiðlinum The Detroit Bureau.

Yfirvöld hafa því sett embættismannanefnd í málið og sér hún það helst til ráða að draga úr umferð fátæklinga um vegi og götur og gera þannig ferðir Rolls, Bentley, Bugatti og Ferraribílanna greiðari. Það sem helst þykir koma til greina í þessu er það að banna hreinlega fátæklingum að eiga bíla en ferðast með almannasamgöngufarartækjum þegar þeir þurfa að fara milli staða.

„Hver og einn á sitt lúxuslíf,“ segir Hussain Lootah landstjóri í Dubai. „En vegakerfið ber ekki fleiri bíla og við verðum að setja lög um það hverjir megi eiga bíla,“ segir landstjórinn og segir að vænlegast sé að bílaeign miðist við einhver tiltekin tekju- og eignamörk. Allir sem undir þeim þröskuldi reynast, megi einfaldlega ekki eiga bíl.

Ríkisstjórn Dubai hefur skoðað ýmsa aðra möguleika í stöðunni eins og t.d. að hækka hið lága eldsneytisverð hressilega og hækka bílastæðagjöld og tryggingar og hvetja til sameignar og samnýtingar á bílum. Hussain Lootah landstjóri telur allar slíkar mjúkar aðgerðir vita gagnslausar. „Ef málum er ekki framfylgt af hörku, þá hlýðir enginn,“ segir hann.

Í þeirri almennu auðlegð sem ríkir í Dubai hefur eftirspurn eftir erlendu vinnuafli aukist mjög og hefur farandvinnuaflið flætt inn í ríkið. Jafnframt hefur ferðamannastraumur aukist mjög í kjölfar mikillar uppbyggingar ferðamálastarfseminnar. Á sl. ári komu t.d. 8,7 milljón inn í landið um flugstöðina í Dubai og bílainnflutningurinn óx gríðarlega.

En hvað eiga þeir fátækari af heimamönnum að gera ef þeir allt í einu mega ekki eiga bila? Lootah bendir á glænýtt sporvagnakerfi Dubaiborgar handa þeim. En svo fyrirfinnist líka í ríkinu leigubílar, rútur, lúxusrútur og neðanjarðarlestarkerfi sem verið sé að efla og útvíkka. En almenningur sé tregur til að nýta þessa samgöngumöguleika af því hversu bílanotkunin sé svo hræódýr.