FDM –aðstoð í Danmörku

http://www.fib.is/myndir/DanskAutohj.jpg

 FDM sem er systurfélag FÍB í Danmörku hefur nú komið á neyðaraðstoð sem veitir svipaða hjálp ef bíllinn bilar og FÍB-aðstoð veitir við og á helstu þéttbýlisstöðum á Íslandi. Nýja aðstoðarfyrirtækið er stofnsett í samvinnu við dráttarbílafyrirtækið Dansk Autohjælp og nefnist nú FDM Vejhjælp.

Gagnstætt Íslandi eru flestir nýir bílar í Danmörku og öðrum Evrópulöndum yfirleitt seldir þannig að á meðan tveggja ára lögbundin  ábrgð á þeim er í gildi geta eigendur kallað eftir aðstoð vegaaðstoðarfyrirtækis eða -tækja bili bíllinn úti á vegi eða götu. Eigendur bílanna þurfa ekki að greiða fyrir þessa þjónustu, hún er einfaldlega innifalin í kaupverði nýja bílsins. Þegar ábyrgðartími bílsins er útrunninn geta bíleigendur keypt sér bilanatryggingu en algengt verð hennar er 10-15 þúsund ísl. kr á ári. Hér á Íslandi er FÍB-aðstoð eina dæmið um þjónustu af þessu tagi. Hún er veitt félagsmönnum FÍB innan,  og við helstu þéttbýlissvæði landsins og er innifalin í félagsgjaldi FÍB.

En í Danmörku er mikill fjöldi eldri bíla í umferð og FDM telur að minnst hálf milljón bíla í umferð séu án aðstoðartryggingar af þessu tagi. Framkvæmdastjóri FDM segir að ¬það sé ekki síst til eigenda þessara bíla sem félagið vilji ná með stofnun FDM vejhjælp. Ef bíll verður rafmagnslaus eða bilar, getur í Danmörku eins og hér á landi, orðið mjög dýrt að kalla til aðstoð. -Ef engin er aðstoðartryggingin þarf eigandinn að greiða allan þann kostnað úr eigin vasa, segir framkvæmdastjórinn, Thomas Møller Thomsen.
 
En aðgangur að þjónustu FDM vejhjælp er ekki innifalinn í sjálfri félagsaðildinni að FDM, eins og er hér á Íslandi hjá FÍB, heldur þarf að greiða viðbótargjald við félagsgjaldið til að öðlast rétt til þjónustunnar. Viðbótargjaldið er 3.470 ísl. kr. Árlegt félagsgjald í FDM að viðbættu aðstoðargjaldinu er 9.800 ísl. krónur. Í frétt frá FDM segir að ríflega þriðjungur hinna 237 þúsund félagsmanna FDM hafi nú þegar greitt viðbótargjaldið sem veitir þeim aðgang að aðstoðarnetinu og þjónustu þess.