Fellibylurinn Katrín gæti haft langtímaáhrif á olíuframleiðslu

Í gær var olíuborpöllum, olíuframleiðslusvæðum og olíuhreinsunarstöðvum lokað í og við Mexíkóflóa vegna fellibylsins Katrínar.  Þetta hafði í för með sér um 12% samdrátt í  hráolíuframleiðslu og 10% samdrátt í framleiðslugetu olíuhreinsunarstöðva í Bandaríkjunum. 

New Orleans er hjarta gas- og olíuframleiðslu við Mexíkóflóa.  Óttast er að áhrif þessara hamfara geti verið langvarandi þar sem hætta er á að skaði vegna fellibylsins dragi úr olíuframleiðslu til lengri tíma.

Fyrir ári síðan dróst olíuframleiðsla saman í marga mánuði vegna eyðileggingar af völdum fellibylsins Ivans.  Mestur varð skaðinn vegna aurflóða við ósa Mississippi sem skemmdu olíuleiðslur.  Óttast er að eitthvað svipað geti gerst í kjölfar Katrínar. 

Hráolían fór yfir 70 dollara á tunnuna í Bandaríkjunum í gær.  Verðin fóru undir 68 dollara í lok dags í kjölfar yfirlýsinga Bush stjórnarinnar um að til greina kæmi að setja hluta neyðarbirgða ríkisins af hráolíu á markað kæmi um það ósk frá olíuhreinsunarstöðvum.

Sumir sérfræðingar benda á að aðal vandamálið í augnablikinu sé skortur á bensíni og lítil framleiðslugeta olíuhreinsunarstöðva.  Í Lousiana eru 17 olíuhreinsunarstöðvar sem samanlagt geta unnið úr yfir 2,7 milljón tunnum af hráolíu á dag.