FIA kallar eftir aðgerðum gegn umferðarslysunum

http://www.fib.is/myndir/Max-pallb.jpg
Max Mosley, forseti FIA.



Max Mosley forseti FIA fylgdi fyrr í dag úr hlaði undirskriftasöfnun undir áskorun til allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um alheimsátak gegn umferðarslysum. Undirskriftasöfnunin fer fram á heimasíðu umferðarátaks FIA sem nefnist Make Roads Safe eða gerum vegina örugga. Undirskriftasöfnunin hófst á upphafsdegi umferðaröryggisviku SÞ en hún er einmitt haldin að frumkvæði FIA og Max Mosley.

Max Mosley benti fréttamönnum á þá staðreynd að um 70 börn láta árlega lífið eða slasast fyrir lífstíð í umferðarslysum í Bretlandi. Það jafngildir tveimur skólastofum þéttskipuðum börnum. „Dauðaslys í umferðinni eru eilífur harmleikur sem taka verður á af fullri alvöru og festu. Af þeirri ástæðu styður FIA heilshugar markmið þessarar fyrstu umferðaröryggisviku sem Sameinuðu þjóðirnar standa fyrir og viðburði sem henni tengjast um allan heim. Við verðum öll að taka til óspilltra málanna um allan heim gegn hinum sívaxandi faraldri sem umferðardauðinn er,“ sagði Mosley.  

Auk Max Mosley eru helstu frumkvöðlar og forsvarsmenn að umferðaröryggisviku SÞ og átakinu Make Roads Safe þeir Michael Schumacher sjöfaldur sigurvegari í Formúlunni, Robertson lávarður af Port Ellen, fyrrum utanríkisráðherra Breta og framkvæmdastjóri NATO, og Stephen Ladyman ráðherra umferðaröryggismála í Bretlandi. Þeir héldu sameiginlegan fréttamannafund í morgun og kynntu þar sérstaklega átaksverkefnið Gerum vegina örugga eða Make Roads Safe og þá undirskriftasöfnun sem fram fer nú á þess vegum og fyrr er nefnd.



Michael Schumacher sagði þar m.a:  

„Þótt umferðarslys taki álíka mörg mannslíf og malaría og berklar hefur alþjóðasamfélagið enn ekki vaknað til vitundar um  þá hryllilegu sóun á mannslífum sem hér á sér stað en sem koma mætti í veg fyrir. Þetta er meginástæða þess að ég styð af heilum huga verkefnið og umferðaröryggisviku Sameinuðu þjóðanna og fagna því að SÞ sé nú loks að taka þetta mál á dagskrá ráðherrafunda samtakanna.“

Einn af stjórnarmönnum FIA og formaður hins ítalska systurfélags FÍB, Franco Lucchesi, tekur í sama streng og Schumacher. Hann segir að það sé algerlega óásættanlegt að 1,2 milljónir manna láti lífið árlega í umferðarslysum í heiminum og yfir 50 milljónir slasist. „Þetta er algerlega ólíðandi hvort heldur sem er útfrá siðferðilegum eða efnahagslegum forsendum. Við getum ekki lengur leyft okkur að sitja og horfa á þennan harmleik án þess að aðhafast nokkurn skapaðan hlut og kenna örlögunum um. Við vitum vel að það er hægt að koma að mestu í veg fyrir að slys eigi sér stað og þessvegna ber okkur að grípa strax til aðgerða,“ segir Lucchesi.“