FIA og Peugeot í öryggissamvinnu

The image “http://www.fib.is/myndir/SidWatkins.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Prófessor Sid Watkins ásamt Michael Schumacher.
Peugeot og FIA-heimssamtök bifreiðaeigendafélaga og bílaíþróttafélaga vinna um þessar mundir saman að rannsókn sem miðar að því að auka öryggi rallökumanna í keppni.
Þessi samvinna samtakanna og bílaframleiðslufyrirtækisins hófst fyrir nokkru og dauðaslysið sem varð í rallkeppni í Wales sl. sunnudag hefur enn frekar hert á starfi rannsóknafólksins og munu niðurstöður án efa skila sér í enn öruggari bílum í náinni framtíð. Ökumaðurinn sem fórst í Wales hét Michael Parks.
Algengustu slys sem verða í rallkeppni í dag eru þegar bíl er ekið inn í hlið annars keppnisbíls eða, eins og gerðist í Wales á sunnudag, að keppnisbíll skrensar og hlið hans skellur á tré í vegkantinum. Markmið rannsóknar Peugeot og FIA er að bæta öryggi bílanna gagnvart slysum af fyrrnefndu tagi.
Peugeot Sport hefur þegar látið af hendi gögn úr svarta kassanum sem var í bílnum og ákveðið að heimila EuroNCAP, sem er sérstök stofnun innan FIA, ótakmarkaðan aðgang að öllum rallbílum sínum til frekari rannsókna og árekstrarprófana. Þeim rannsóknum stjórnar nú prófessorinn og taugaskurðlæknirinn Sid Watkins. Sid Watkins er maðurinn sem byggt hefur upp og skipulagt allan öryggisviðbúnað og læknaþjónustu við ökumenn í Formúlu 1. Hann vinnur nú að sams konar skipulagi innan rallíþróttarinnar og hefur verið viðstaddur sérhverja keppnislotu í heimsmeistarakeppninni í ralli frá því í Finnlandsrallinu í ágústbyrjun.
Mörg óhöpp hafa orðið í heimsmeistaramótinu í ralli frá upphafi en þar til á sunnudag höfðu dauðaslys ekki orðið síðan 1993 þegar nýsjálenskur aðstoðarökumaður fórst í Ástralíurallinu.
The image “http://www.fib.is/myndir/Peugeotsport.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
FIA og Peugeot vinna saman að bættu öryggi í ralli.