Fiat 500 – bíll ársins í Evrópu 2008!

http://www.fib.is/myndir/Fiat_500.jpg
Fiat 500 - bíll ársins 2008 skv. frétt Automotive News.

Næstkomandi mánudag verður tilkynnt um hvaða bíll hefur verið kjörinn bíll ársins af dómnefnd 58 bílablaðamanna frá 22 löndum Evrópu. Þótt hin formlega tilkynning sé ekki komin fram enn hefur það lekið í fjölmiðla hvaða bíll það er sem hlýtur titilinn í ár – nefnilega hinn nýi Fiat 500.

Margir hafa talið sig sjá það fyrir að Fiatinn yrði valinn því ekki svo lítið hefur bílnum verið hampað. Sjálf kynningin á honum sl. sumar var með þvílíkum íburði að annað eins hefur aldrei sést þegar nýr bíll hefur komið fram á sjónarsviðið. Bílablaðamenn hafa heldur ekki leynt hrifningu sinni á bílnum og ekki minnkaði hún þegar þessi nýi smábíll hlaut fimm stjörnur í árekstrarprófum EuroNCAP fyrr í haust.

Fiat 500 er rétt kominn á markað í heimalandinu Ítalíu og lítilsháttar í nokkrum öðrum löndum álfunnar. Pantanir hafa hins vegar streymt inn og og langir biðlistar eftir bílnum hafa orðið til hvarvetna. Fiat 500 kemur í sölu á Norðurlöndunum eftir áramót. Til Danmerkur kemur hann í febrúar og um svipað leyti má búast við honum til Íslands þar sem innkaupasamvinna er með íslenska Fiat-umboðinu og hinu danska.

Samkvæmt heimildum Automotive News sigraði Fiat 500 með miklum yfirburðum í atkvæðagreiðslu dómnefndarinnar og hlaut 60 fleiri stig en bíll númer tvö sem varð Mazda 2. Þriðja sætið hlaut svo Ford Mondeo, fjórða Kia cee´d, fimmta Nissan Qashqai og sjötta Mercedes Benz C.

Þótt Fiat 500 sigri með miklum yfirburðum nú þá hefur mestur munur milli fyrsta og annars bíls orðið árið 1988. Þá hlaut Peugeot 405 samtals 464 stig eða 212 fleiri stig en Citroen AX. Samkvæmt Automotive News fær Fiat 500 nú 385 stig, Mazda 2 fékk 325 stig, Ford Mondeo 202 stig, Kia Ceed 166, Nissan Qashqai 147, Mercedes C-fékk 128 stig och Peugeot 97 stig. Venjulegast er að einungis fáein stig skilji að efstu bílana.

Bíll ársins í Evrópu var í fyrsta sinn valinn árið 1964. Það var Rover 2000. Fiat hefur oftast unnið titilinn Bíll ársins í Evrópu eða alls níu sinnum.