Fiat eignast Chrysler að fullu

Ítalski bílaframleiðandinn Fiat hefur nú eignast Chrysler, þriðja stærsta bílaframleiðanda Bandaríkjanna, að fullu. Gengið var frá kaupunum rétt fyrir áramótin þegar forstjóri Fiat og Chrysler; Sergio Marchionne hét því að snara út 4,35 milljörðum dollara fyrir 20. janúar nk.

Um áratugur er síðan Fiat eignaðist rúman helmings hlut í Chrysler og kom þannig í veg fyrir gjaldþrot þessa fornfræga vörumerkis, reyndar með tilstyrk bandaríska ríkisins. Marchionne hefur frá 2009 verið samtímis forstjóri Fiat og Chrysler, en endanleg sameining hefur dregist á langinn þar til nú þegar Fiat hefur eignast 41,46 prósenta hlutinn sem út af stóð.

Sergio Marchionne sagði þegar tilkynnt var um kaupin að þau myndu auðvelda sameiningu og samnýtingu í tækni- og hönnunarmálum, framleiðslu og dreifingu. Sölukerfin yrðu nú sameinuð sem þýddi aðgang Fiat að sölukerfi Chryslers í Ameríku og á sama hátt fullan aðgang Chryslers að sölukerfi Fiat í Evrópu. „Hið sameinaða eignarhald gerir okkur nú mögulegt að framfylgja til fulls þeirri draumsýn að skapa bílaframleiðanda á heimsvísu,“ sagði Marchionne.