Fiat Grande Punto Evo með nýrri vél

Bílaáhugafólk bíður nú spennt eftir því að bílasýningin í Frankfurt hefjist. Á sýningunni verður nefnilega fjöldi nýjunga sem lúta að betri nýtingu eldsneytis og minni mengun. Þannig mun Fiat kynna fyrsta bílinn sem boðinn verður með nýrri byltingarkenndri Multiair bensínvél. Vélin verður í nýrri kynslóð Fiat Grande Punto sem er mjög vinsæll bíll í Evrópu. Multiair tæknin er, eins og samrásarinnsprautun dísilvéla (Common Rail), uppfinning tæknimanna Fiat og bætir verulega orkunýtingu bensínvéla. Fullyrt er að tækln auki afl og afköst bensínvéla um amk. 10 prósent og dragi að sama skapi úr CO2 útblæstri þeirra.

 Grande Punto Evo heitir bíllinn með þessari nýju véltækni undir vélarhlífinni. Í mjög stórum dráttum er þessi Multiair tækni fólgin í því að stýra opnun og opnunartíma innsogsventlanna í vélinni til að nýta sem best hina dýru bensíndropa. Sagt hefur verið áður frá Multiair tækninni í frétt hér á FÍB vefnum sem hér er að finna.

 Með Multiair tækninni eykst hámarksafl bensínvélar um 10 prósent og vinnslan eða togið um 15 prósent samhliða því að eyðslan dettur niður um 10 prósent. Sé túrbínu svo bætt við vél með Multiair tækni þá er það sagt vera mögulegt að koma eyðslunni niður um 25 prósent miðað við venjulega vél með sama rúmtaki. Jafnframt minnkar útblástur natríumoxíðsamband um hvorki meira né minna en 60 prósent. 

 Af hálfu Fiat hafa allar staðreyndir og mæliniðurstöður ekki verið gefnar upp að fullu. Fullyrt er þó að Multiair vélin standist mengunarstaðalinn Euro 5 með glans og allar vélar frá Fiat sem það gera verði framvegis með sjálfvirkum ádrepara og ræsibúnaði, svonefndri Start-Stop tækni.

Auk þessarar nýju Multiair vélar verður svon hinn nýi Grande Punto boðinn með nýrri 1,3 l dísilvél sem líka stenst Euro-5 mengunarstaðalinn með glans.

 Annað sem nýtt er í þessum nýja Grande Punto er að sjö loftpúðar verða staðalbúnaður. Þar af er einn til að verja hné ökumanns í árekstri. Þá hefur Fiat aukið samstarf við TomTom, sem er framleiðandi staðsetningartækja í bíla. Fyrsti ávöxtur þess er reyndar í hinum nýja Punto. Það er staðsetningartæki, útvarp og hljómtæki og símkerfi sem öllu er stjórnað á einum og sama snertiskjánum í mælaborðinu.